Kastljósið beinist í vaxandi mæli að stöðunni á markaðnum með atvinnuhúsnæði beggja vegna Atlantsála.Vitringunum í Ómaha líst ekki á blikuna og rauð ljós blikka víða í Bandaríkjunum. En þrátt fyrir hærri fjármagnskostnað virðist staðan vera öðru vísi hér á landi en vestanhafs.
Það vakti athygli að sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nefndi sérstaklega markaðinn með atvinnuhúsnæði þegar kemur að þjóðhagsvarúð við stjórn efnahagsmála í skýrslu sinni sem kynnt var 9. maí. Eðli málsins samkvæmt eru félög sem leigja út atvinnuhúsnæði skuldsett og því viðkvæm fyrir breytingum á vaxtastigi. Segja sérfræðingar sjóðsins að stjórnvöld ættu að íhuga að veita Seðlabankanum heimildir til að setja frekari reglur um lágmarks áhættuvogum fyrir atvinnuhúsnæði og leigufélög á þeim markaði.
Atvinnuhúsnæði hefur hækkað mikið verði á undanförnum árum rétt eins og íbúðarhúsnæði. Þannig hækkaði atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu um tæplega níu prósent í fyrra. Þróunin hefur verið sem hætti beggja vegna Atlantsála en nú eru blikur á lofti. Þannig telja margir sérfræðingar að það verði markaðurinn með atvinnuhúsnæði sem reynist myllusteinn um háls bandaríska bankakerfisins.
Lánveitingar til atvinnuhúsnæðis í Bandaríkjunum nema 5,6 billjón Bandaríkjadölum. Eins og fram kemur í umfjöllun Financial Times á dögunum þá hafa svæðisbundnir bankar veitt stærstum hluta þessara lána. Slíkir bankar hafa verið í kastljósinu eftir að Silicon Valley Bank, Signature Bank og First Republic fóru á hausinn fyrir nokkru og óttast margir að næsti skellur muni stafa af þróuninni á markaðnum með atvinnuhúsnæði.
Ólík staða í Bandaríkjunum og Íslandi
Eins og gefur að skilja þyngist róðurinn í rekstri leigufélaga þegar fjármagnskostnaður hækkar hratt og eftirspurnin er ekki með þeim hætti að hægt sé að ýta hærri fjármagnskostnaði út í leiguverðið. Eins og Seðlabankinn bendir á í síðustu fjármálastöðugleikaskýrslu sinni er framboðið á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu lítið á sama tíma og eftirspurnin er mikil. Miðað við þetta ætti staða leigufélaga hér á landi vera önnur en í Bandaríkjunum þar sem þessu þveröfugt farið: framboðið mikið og eftirspurnin þverrandi. Fram kemur í umfjöllun Financial Times að skellurinn gæti orðið mestur í uppgangsborgum á borð við San Francisco og New York.
Eins og gögn frá bandaríska seðlabankanum sýna þá eru lánveitendur nú þegar farnir að halda að sér höndum þegar að atvinnuhúsnæði og setja strangari skilyrði fyrir tryggingum en áður. Það er fyrst og fremst skuldsetning og hækkun vaxta sem er að þrengja að markaðnum vestanhafs. Financial Times hefur eftir sérfræðingum að aðeins sé tímaspursmál hvenær bankar þurfi að færa niður virði lána til atvinnuhúsnæðis í bókum sínum.
Vitringarnir í Ómaha hafa áhyggjur af stöðunni
Atvinnuhúsnæði kom einnig til tals á aðalfundi Berkshire Hathaway um liðna helgi varaði Warren Buffet við stöðunni. Lét hann þau orð falla að mörgum stórum fasteignaverkefnum hafi verið ýtt úr vör þegar vextir voru lágir og ljóst er að þeir sem héldu að þeir gætu fjármagnað verkefnin á 2,5 prósent vöxtum til frambúðar séu að vakna upp við vondan draum.
Charlie Munger félagi Buffets hefur kveðið fastar að orði. Þannig lét hann þau orð falla í síðasta mánuði af stormur væri í aðsigi á markaðnum með atvinnuhúsnæði í Bandaríkjunum og bankar væru stútfullir af lánveitingum sem ekki yrði staðið í skilum af.
Fjallað er um málið í Fasteignablaðinu, sem kemur út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér