Kínverski bílaframleiðandinn BYD hefur kynnt uppfærða útgáfu af ódýrasta rafbílnum sínum, Seagull. Fyrirtækið hefur einnig ákveðið að lækka verðið á þeim bíl enn meira í ljósi vaxandi samkeppni á kínverska rafbílamarkaðnum.

Nýr Seagull frá BYD í Kína kostar nú um 69.800 júan, eða um 1,3 milljónir króna.

Tilkynningin kemur aðeins tveimur dögum eftir að BYD kynnti upphafsverð á nýja Yuan Plus-bíl fyrirtækisins, sem mun kosta um 12% minna en fyrri útgáfan.

Rafbílaframleiðendur hafa verið undir miklum þrýstingi undanfarið í ljósi minni sölu á heimsvísu en Tesla hefur einnig þurft að bjóða ívilnanir til kínverskra viðskiptavina, eins og tryggingarstyrki, til að laða til sín fleiri viðskiptavini. Tesla lækkaði einnig verðið á Model 3 um 5,9% og verðið á Model Y um 2,8% í janúar.

Wall Street Journal greinir einnig frá því að BYD hafi selt 121.748 bíla í febrúar, miðað við 201.493 bíla mánuðinn þar á undan.