Sænska tónlistarveitan Spotify tilkynnti í morgun að hún hyggist segja upp 6% af starfsönnum sínum eða tæplega 600 manns. Hlutabréf félagsins hafa hækkað um meira en 4% í viðskiptum fyrir opnun markaða.
Fyrirtækið, sem var með um 9.800 starfsmenn í fullu starfi þann 30. september síðastliðinn, gerir ráð fyrir að gjaldfæra 35-45 milljónir evra, eða 5,4-7,0 milljarða króna, í einskiptiskostnað vegna uppsagnanna.
Daniel Ek, forstjóri og stofnandi Spotify, segir í tilkynningu að rekstrarkostnaður félagsins hafi verið að vaxa tvöfalt hraðar en tekjur. Í ljósi krefjandi rekstrarumhverfis, þar á meðal kólnandi auglýsingamarkaði, sé erfitt að snúa þróuninni við án þess að ráðast í miklar hagræðingaraðgerðir.
„Ég axla fulla ábyrgð á þeim ákvörðunum sem komu okkur í þessa stöðu,“ segir Ek. Hann sagðist hafa verið of brattur að fjárfesta í framtíðinni umfram það sem tekjuvöxtur Spotify stóð undir.