Spotify hefur ákveðið að hækka verðið á Premium áskriftarþjónustu sinni í fyrsta sinn í meira en áratug. Fyrir íslenska notendur hækkar verð á mánaðaráskrift án auglýsinga frá 10,99 evrum upp í 11,99 evrur.
Talsmenn snjallforritsins segjast vera að hækka verðin sín samhliða keppinautum sínum en Apple Music, Amazon Music, Peacock, Netflix, Max og Paramount+ hafa meðal annars nýlega hækkað áskriftarverðin sín.
Hækkunin mun eiga sér stað í Bandaríkjunum, Kanada og 49 öðrum löndum.
„Til að geta haldið áfram með nýsköpun verðum við að breyta verðinu á Premium áskrift okkar út um allan heim. Þessi uppfærsla mun hjálpa okkur að halda áfram að skila góðu efni til hlustenda og listamanna sem notast við forrit okkar,“ sagði Spotify í tilkynningu í gær.
Notendur munu fá mánaðar frest áður en hækkunin tekur gildi, nema þeir ákveði að segja upp þjónustunni.
Daniel Ek, sænski framkvæmdastjóri Spotify, sagði á stjórnarfundi fyrr á árinu að Spotify myndi gjarnan vilja hækka verðin sín og þegar tímasetningin væri rétt myndi sú hækkun leggjast vel í notendur þar sem hækkunin myndi á endanum skila betri vöru.