Sænska tónlistarveitan Spotify hefur tilkynnt að það muni segja upp 1.500 starfsmönnum í hagræðingarskyni. Þetta samsvarar um 17% af öllu vinnuafli fyrirtækisins sem leitast nú við að draga úr kostnaði.

Daniel Ek, framkvæmdastjóri Spotify, segir að hann hafi sjálfur tekið þessa erfiðu ákvörðun í ljósi þess hve lítill hagvöxtur hafi verið undanfarið. Ek segir niðurskurðinn vera mjög sársaukafullan fyrir fyrirtækið en rúmlega 9.000 manns starfa hjá Spotify.

„Ég viðurkenni að þetta mun hafa áhrif á fjölda einstaklinga sem hafa lagt sig mikið fram. Til að vera hreinskilinn mun margt klárt, hæfileikaríkt og duglegt fólk yfirgefa okkur,“ segir Ek.

Samkvæmt uppgjöri Spotify hagnaðist fyrirtækið um 65 milljónir evra á þriðja ársfjórðung þessa árs og var það í fyrsta sinn sem fyrirtækið skilaði hagnaði í meira en ár. Spotify hafði þá nýlega hækkað áskriftarverð sitt og fengið til sín fleiri viðskiptavini.

Frá því að Spotify var stofnað hefur fyrirtækið eytt háum fjárhæðum í að tryggja sér sérstakt efni eins og hlaðvarp sem búið var til af Michelle og Barack Obama. Spotify undirritaði einnig 25 milljóna dala samning við hertogann og hertogaynjuna af Sussex, Harry og Meghan. Parið skilaði inn aðeins 12 þáttum á tveimur og hálfu ári áður en samningnum lauk í júní á þessu ári.

„Sannleikurinn í málinu er að sumt af þessu hefur virkað, annað ekki,“ sagði Ek í samtali við BBC í september.