Indversk flugfélög hafa undanfarið upplifað mikla aukningu í tíðni sprengjuhótana þar sem fólk gabbar flugfélögin til að aflýsa flugferðum með tilheyrandi truflunum.

Nýlega þurfti Boeing 777-flugvél með 211 farþega á vegum flugfélagsins Air India að nauðlenda í kanadíska bænum Iqaluit í 800 km fjarlægð frá Nuuk í Grænlandi. Flugvélin var á leið frá Mumbai til Chicago þegar sprengjuhótun barst.

„Við erum búin að vera föst á flugvellinum frá því klukkan fimm um morguninn. Við höfum ekki hugmynd um hvað er að gerast eða hvað við eigum að gera næst. Við erum algjörlega strandaglópar,“ skrifaði farþeginn Harit Sachdeva á samfélagsmiðlum.

Flugvél á vegum kanadíska flughersins mætti síðan nokkrum tímum síðar og ferjaði farþegana til Chicago.

Sprengjuhótunin reyndist vera gabb en margar slíkar hótanir hafa borist indverskum flugfélögum á þessu ári. Í síðustu viku voru hátt í 90 hótanir sem leiddu til breytinga, afbókana og tafa.