Óhætt er að segja að stór hluti nýsköpunargeirans hefur tekið illa í tillögu hagræðingarhóps forsætisráðherra um að leggja niður Nýsköpunarsjóðinn Kríu. Framkvæmdastjóri sjóðsins segist hissa á tillögunni og telur að horfa eigi til Norðurlandanna sem reki sambærilega sjóði.
Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær telur hagræðingarhópurinn að hægt sé sækja 9,7 milljarða króna með því að leggja niður sjóðinn og selja eignir hans. Hópurinn segir að Nýsköpunarsjóðnum Kríu sé ætlað að lagfæra markaðsbrest sem er ekki lengur til staðar.
„Komi aftur fram ákall frá nýsköpunarsamfélaginu um markaðsbrest mætti skoða að fjármagna það sérstaklega. Auk áætlaðrar hagræðingar má með sölu á eignum sjóðsins lækka vaxtagjöld ríkissjóðs,“ segir í skýrslu sjóðsins.
Færri sprotafyrirtæki myndu komast á legg
Ragnheiður H. Magnúsdóttir, stjórnarformaður og einn stofnenda Nordic Ignite, fjárfestingarfélags sem sérhæfir sig í fjárfestingum í nýsköpun á hugmyndastigi, tjáði sig um málið á Facebook í gærkvöldi og sagði tillöguna „alveg galna“.
Ragnheiður segir að nýsköpun hafi verið í miklum vexti hér á landi undanfarin ár m.a. vegna aðgerða Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA) og Kríu, sem voru sameinaðir um áramótin.
„Það fjármagn sem ríkið hefur sett í nýsköpun undanfarin ár er fjárfesting sem ríkið fær nánast strax til baka í formi launaskatta og erlendra tekna. Ef stuðnings-apparat eins og þetta er lagt niður munum við sjá mun færri sprotafyrirtæki komast á legg hér á landi.“
Nýsköpunarumhverfið sé í stöðugum þroska og þörf sé á meira fjármagni á englastiginu (e. pre-seed), sem hún kallar dauðadal fyrri sprotafyrirtæki. Hún segir að hinar Norðurlandaþjóðirnar standi sig mun betur þegar kemur að því að fá krónu-á-móti-krónu fjármagn á þessu fyrsta stigi fjármögnunar, þar sem ríkið kemur með krónu á móti hverri krónu sem kemur frá einkafjárfestum.
„Við erum þjóð sem treystir enn of mikið á tekjur frá náttúruauðlindunum (orka, sjávarútvegur og ferðaþjónusta) og við hreinlega verðum að halda áfram að huga að vexti hugvitsgreina. Tekjur vegna hugvitsgreina eru núna 18% af erlendum tekjum, og þessar tekjur hafa vaxið núna ár frá ári. Þessi tekjulind á alla möguleika á að vaxa enn frekar ef hlúð er að nýsköpuninni.
Fjárfesting í nýsköpunarumhverfinu okkar er ekki útgjaldaliður heldur fjárfesting sem skilar sér í auknum tekjum fljótt og örugglega, það er auðvelt að sjá ef horft er hvernig nýsköpun hefur þróast síðustu ár.“
„Við erum jafn hissa á þessu“
Í kommentakerfinu við færslu Ragnheiðar má finna viðbrögð nokkurra einstaklinga úr nýsköpunargeiranum við tillögu hagræðingarhópsins.
Hrönn Greipsdóttir, sem var skipuð forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu í janúar eftir að hafa stýrt NSA frá árinu 2022, segir í athugasemd við færsluna að „við erum jafn sé jafn hissa á þessu“, og má gera ráð fyrir að hún eigi þar við um starfsfólk sjóðsins.
„Það er búið að leggja Kríu niður og verið að vinna stefnu fyrir nýjan sjóð þar sem sveigjanleiki, árangur og fókus á markaðsbrest eru lykilatriði,“ skrifar Hrönn og tekur undir að líta eigi til Norðurlandanna sem reki sambærilega sjóði með góðum árangri.
„NSA var sígrænn og sjálfbær í 25 ár og því enginn baggi á ríkissjóði svo sparnaðurinn er því það sem eftir stendur af framlagi til Kríu / nýsköpunar. Á þessum 25 árum var fjárfest í yfir 200 sprotum sem margir hafa lagt sitt af mörkum til hagvaxtar og staðið undir nýjum fjárfestingum.“
Alexander Jóhönnuson, formaður Samtaka sprotafyrirtækja sem starfar sem starfsgreinarhópur innan Samtaka iðnaðarins, segir tillöguna byggja á þekkingarleysi. Hann hefði viljað að fulltrúar hagræðingarhópsins hefðu fyrst leitað álits hjá fólki í nýsköpunarumhverfinu.
Ingi Björn Sigurðsson, fyrrverandi fjárfestingarstjóri hjá NSA, segist ekki sjá hvernig hópurinn telur sig geta sótt 9,7 milljarða króna með því að leggja sjóðinn niður.
Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, sem var stjórnarformaður sprotasjóðsins Kríu, segir að Kría hafi alltaf verið hugsað sem tímabundið verkefni. Hann veltir fyrir sér hvort að það sé ekki alveg jafn varhugavert að stuðningsapparat eins og Nýsköpunarsjóðurinn Kría verði að eilífðarvél. Hann bætir þó við að hann sé enn að hugsa málið og hyggist fjalla um það betur á vettvangi Northstack.