Hinn goðsagnakenndi fjárfestir Warren Buffet hefur haldið áfram á síðustu fjórðungum að auka handbært fé fjárfestingafélags síns Berkshire Hathaway.
Samkvæmt síðasta árshlutauppgjöri var handbært fé og skuldabréf bókfærð á 300 milljarða dala eða um 42 þúsund milljarða íslenskra króna.
Til að setja þessa upphæð í samhengi er um fjórtánfalda landsframleiðslu Íslands að ræða.
Það er ekki óeðlilegt að Berkshire sé með mikið handbært fé en umfang þessarar uppsöfnunar hefur vakið athygli.
Fjárfestar bíða nú spenntir eftir árlegu bréfi Buffetts til hluthafa, sem kemur út á laugardaginn, í von um að fá vísbendingar um hvernig hann sér hlutabréfamarkaðinn og hvaða fjárfestingartækifæri hann er með í augnsýn.
Árleg skýrsla Berkshire, sem inniheldur bréfið, mun einnig gefa innsýn inn í stöðuna á þessu gríðarlega lausafé fyri
„Spurningin er, hvað ætlar hann að gera við allt þetta fé?“ segir Steven Check, fjárfestingarstjóri Check Capital Management, sem hefur sótt árlega fundi Berkshire síðan 1996. „Þetta er eins öfgafullt og ég man eftir.“
Berkshire Hathaway hefur átt átta ársfjórðunga í röð þar sem það félag hefur verið nettóseljandi hlutabréfa.
Salan hefur vakið vangaveltur um hvort þessi stefna endurspegli tortryggni Buffett gagnvart núverandi verðmati markaðarins, sérstaklega í ljósi þess að S&P 500 vísitalan hefur hækkað um 4% það sem af er ári og stendur í sögulegu hámarki.
Hlutfall verðmats S&P 500 miðað við áætlaðan hagnað næstu 12 mánaða er nú 22,4, sem er yfir meðaltali síðustu tíu ára, samkvæmt FactSet.
Buffett hefur svarað gagnrýni á varfærni félagsins með því að undirstrika að hann muni aðeins fjárfesta þegar hann sér lítila áhættu og mikla mögulega ávöxtun.
Á aðalfundi Berkshire Hathaway í maí í fyrra sagði hann: „Við viljum gjarnan ráðstafa fénu, en við munum ekki gera það nema við finnum eitthvað sem hefur mjög litla áhættu og getur skilað okkur umtalsverðum hagnaði.“
Ein helsta ástæða fyrir aukningu lausafjár er umfangsmikil sala á hlutabréfum í Apple.
Frá lokum árs 2023 hefur Berkshire dregið verulega úr eignarhlut sínum í Apple, úr nær 6% í 2%. Apple er þó enn stærsta einstaka eign félagsins, með markaðsvirði um 75 milljarða dala.
Þetta gæti verið hluti af undirbúningi fyrir stjórnendaskipti innan Berkshire Hathaway, þar sem Greg Abel, arftaki Buffett, mun einn daginn taka við stjórnartaumunum.
Sumir sérfræðingar telja að Buffett vilji ganga frá málefnum fyrirtækisins þannig að eftirmaður hans standi frammi fyrir sem minnstri óvissu við stjórnartök.
Með þann fjármagnsforða sem Berkshire Hathaway býr yfir gæti félagið keypt flest öll nema stærstu fyrirtækin í Bandaríkjunum, þar á meðal stórfyrirtæki eins og Deere, UPS eða CVS Health.
Hins vegar hefur Buffett verið tregur til að ráðast í stórkaup vegna hátt verðmetinna hlutabréfa á markaðnum.
Einnig hefur endurkaup eigin bréfa dregist saman, þar sem Berkshire keypti engin eigin bréf á þriðja ársfjórðungi 2024 í fyrsta skipti í mörg ár.
Samkvæmt stefnu félagsins verða endurkaup aðeins framkvæmd ef verð bréfanna er talið vera undir „eigin virði“ þess.
Lausaféð skilar verulegum tekjum
Þrátt fyrir óvissu um næstu skref hefur staðan verið hagstæð fyrir Berkshire Hathaway. Lausafé félagsins hefur skilað sér í verulegum vaxtatekjum, þar sem 8 milljarðar dala komu í formi vaxtatekna af tryggingarekstri og 3,8 milljarðar í arðgreiðslur á fyrstu níu mánuðum ársins 2024.
Langtímafjárfestar virðast ekki hafa miklar áhyggjur af þessari varfærni. „Við eigum hlut í Berkshire til að sjá þetta fjármagn vera endurfjárfest í réttu tækifærunum,“ sagði Darren Pollock, fjárfestingastjóri hjá Cheviot Value Management. „Við vonum að stórfiskurinn muni birtast – en það mun greinilega taka tíma.“