Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar, hefur lagt inn fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um hvort það komi til álita að hækka bankaskattinn.

„Kemur til álita af hálfu ráðherra, í ljósi þess mikla hagnaðar sem íslensku bankarnir skila og til að bregðast við háu vaxtastigi bankanna ásamt auknum mun á innláns- og útlánsvöxtum, að hækka bankaskatt að nýju?“ spyr Bjarkey.

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, betur þekktur sem bankaskattur, var fyrst lagður á árið 2010. Skatthlutfallið var upphaflega 0,041% en var ríflega nífaldaður upp í 0,376% árið 2013 til að standa straum af kostnaði við Leiðréttinguna. Hlutfallið stóð óbreytt í 0,376% fram til ársins 2021 þegar það var lækkað í 0,145%.

Bjarkey spurði Bjarna einnig hvort honum væri kunnugt um að lækkun á bankaskattinum hefði skilað sér í bættum kjörum til neytenda.

Viðskiptablaðið fjallaði nýlega um afkomu viðskiptabankanna þriggja í fyrra. Arðsemi eigin fjár Arion banka nam 13,7%, Íslandsbanka 11,8% og Landsbankans 6,3%. Til samanburðar er 10% arðsemismarkmið hjá Landsbankanum, sem er alfarið í eigu ríkisins, og Íslandsbanka, sem er í 42,5% eigu ríkisins.

Margir töluðu fyrir lækkun bankaskattsins á sínum tíma, og var hann meðal annars sagður til þess fallinn að hækka útlánavexti bankanna auk þess að draga úr samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar.