Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir tilteknum skýringum og upplýsingum frá Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra um söluna á 22,5% hlut í Íslandsbanka í mars 2022. Beðið er um svör fyrir 25. mars.

„Óskar umboðsmaður því eftir að fjármálaráðherra upplýsi og skýri hvort og þá með hvaða hætti reglum stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi hafi verið fullnægt að því er snertir söluna á hlutum ríkisins í bankanum til Hafsilfurs ehf.“ segir í tilkynningu á vef Umboðsmanns Alþingis.

Hafsilfur, félag í eigu Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna, tók þátt umræddi útboðinu og keypti hlut í Íslandsbanka fyrir 54 milljónir króna.

Skúli Magnússon, umbosmaður Alþingis, spyr einnig hvort og þá hvernig undirbúningi sölumeðferðar hlutar ríkisins í Íslandsbanka hafi verið hagað þannig að tryggt væri að gætt yrði reglna stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi þegar kæmi að ákvörðunum ráðherra um hvort tilboð skyldu samþykkt eða þeim hafnað.

„Þá er óskað rökstuddrar afstöðu ráðherra til þess hvort og þá að hvaða marki hann hafi sem ráðherra borið lagalega og stjórnskipulega ábyrgð á því að söluferlið færi fram í samræmi við lög.“

Ekki fjallað um málið í skýrslu Ríkisendurskoðunar

Ákvörðun umboðsmanns Alþingis um að kalla eftir svörum frá Bjarna kemur í kjölfar þess að Alþingi lauk umfjöllun sinni um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Almennt fjallar hann ekki um mál samtímis og þau eru til meðferðar hjá Alþingi.

Umboðsmaður Alþingis segir að ekki verði ráðið að í skýrslu Ríkisendurskoðunar hafi verið fjallað sérstaklega um sölu á hlutum í Íslandsbanka til Hafsilfurs eða álitamál um hæfi hans í því sambandi. „Þá verði ekki heldur séð að með umfjöllun sinni um skýrsluna hafi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tekið rökstudda afstöðu til slíkra atriða.“

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi var spurður á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í desember út í hæfi ráðherra við söluna.

Líkt og Innherji fjallaði um, sagðist Guðmundur ekki hafa komið auga á atvik þar sem fjármálaráðherra hafi haft nokkra ástæðu til að velta fyrir sér hæfi sínu við söluna á Íslandsbanka. „Það skýrir hvers vegna við fórum ekki dýpra ofan í þá sálma [í skýrslunni].“