Anton Birkir Sigfússon, forstöðumaður sjálfbærni og samfélagsábyrgðar hjá Högum, segir nýsköpun í matvælaframleiðslu mikilvægan þátt í aukinni sjálfbærni á Íslandi og efnahagslegri framþróun.

Árið 2021 kom sú hugmynd meðal stjórnenda í verslunum Haga hvort hægt væri að styðja betur við þá fjölmörgu matarfrumkvöðla sem leita í verslanir félagsins með hugmyndir sínar og vörur.

Reynslan sýndi að frumkvöðlar voru margir hverjir ekki tilbúnir að taka skrefið og upp úr því varð til nýsköpunarsjóðurinn Uppsprettan. Hugmyndin hafði það markmið að skapa skilvirkan farveg fyrir frumkvöðla og styðja þá við að koma vörum sínum í hillur matvöruverslana.

Nýverið var opnað fyrir umsóknir í Uppsprettuna og er þetta í fjórða sinn sem sjóðurinn úthlutar styrkjum.

Hafa ber í huga að nýsköpun er ekki það sama og hugmynd. Heldur er talað um nýsköpun þegar hugmynd hefur verið hrint í framkvæmd. Þetta kjarnar tilgang Uppsprettunnar, nýsköpunarsjóðs Haga, sem hefur að markmiði að aðstoða frumkvöðla í matvælaframleiðslu við að koma hugmyndum í framkvæmd bæði með fjárhagsstyrk og ekki síður ráðgjöf frá reynslumiklu starfsfólki og samstarfsaðilum Haga,“ segir Anton Birkir.

Frá því að Uppsprettan var fyrst sett á laggirnar hafa 32 verkefni fengið nýsköpunarstyrk að heildarverðmæti 45 milljónir króna. Af þeim verkefnum sem hafa fengið styrk hafa 18 þegar framleitt vörur sem seldar hafa verið í matvöruverslunum.

Anton Birkir bendir á að staða Íslands sem lítils markaðssvæðis með takmarkaðan kaupmátt í alþjóðlegu samhengi geti reynst áskorun ef vöruskortur verður á heimsvísu.

„Loftslagsbreytingar, stríð og spenna í alþjóðlegum stjórnmálum hafa þegar haft áhrif á framboð ákveðinna vörutegunda. Uppskerubrestir í tengslum við kakó og kaffi eru dæmi um þetta, og engin trygging er fyrir því að sambærilegir brestir muni ekki hafa áhrif á mikilvæga matvöruflokka í framtíðinni.“