Einn ráðherranna sem mörgum þykir vera óvæntasta valið í nýju ríkisstjórnina er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sem er nýr ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.
„Þetta leggst mjög vel í mig og ég tek við þessu af mikilli auðmýkt og þakka traustið,“ segir Þórdís Kolbrún í samtali við Viðskiptablaðið.
„Ég er algerlega reiðubúinn að axla þessa ábyrgð en þetta var kannski ekki eitthvað sem ég sá fyrir mér að myndi gerast strax.“
Vandræði vegna kynjahalla
Þórdís Kolbrún var í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um , þá segir Haraldur Benediktsson oddviti flokksins í kjördæminu að hann hafi vitað að formaður flokksins væri í vandræðum vegna kynjahalla og því hafi hann vel getað séð fyrir sér að hún yrði frekar ráðherra heldur en hann.
Aðspurð segir Kolbrún ráðherravalið fyrst og fremst byggja á að velja sterkan hóp í sterka ríkisstjórn.
„Þetta er fjölbreyttur hópur og ef ég er að fá stöðuna af því að ég er ung kona þá er annar að fá stöðuna því að hann er fullorðinn karl. Þetta snýst um að skipa sterkan hóp og þar skipta margir þættir máli,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Ég treysti mér í verkefnið og vænti þess að vera dæmd út frá verkum mínum. Ég er mjög ánægð með að Sjálfstæðisflokkurinn meinar það að hann treysti ungu fólki. Svo fæ ég auðvitað tækifæri til að velja fólk með mér og þá skiptir máli að velja fólk sem vegi mig upp og þannig get ég náð mér í meiri reynslu.“
Þingflokksformaður og aðstoðarmaður ráðherra
Þó Þórdís Kolbrún sé ný á þingi líkt og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um , þá er hún ekki ný í pólitík.
„Ég hef reynslu annars vegar úr þinginu, sem framkvæmdastjóri þingflokksins frá árinu 2013 þangað til ég fer með Ólöfu Nordal í Innanríkisráðuneytið sem aðstoðarmaður hennar,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Það er annars vegar mjög mikilvægt að skilja þankaganginn í þinginu þó ég hafi þá ekki setið sem þingmaður og hins vegar úr ráðuneytinu, en ég er alveg viss um að það gagnast vel að þekkja vel til í einu ráðuneyti og að hafa fengið að vinna með og fyrir Ólöfu Nordal er ómetanlegt veganesti.“
Hafði sjálf hugsað um sameiningu málaflokka tengdum ferðamálum
Spurð að því hvort hún hefði talið það heppilegra að sameina alla málaflokka sem tengjast ferðamennsku, eins og samgöngumál og umhverfismál undir eitt ráðuneyti segist hún sátt við að hafa þetta svona.
„Ég skil alveg það sjónarmið, ég hef alveg hugsað það sjálf, en stjórnstöð ferðamála á að sjá um samhæfingu þessara mála,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Þessi málefni kalla auðvitað á samvinnu við önnur ráðuneyti og aðra ráðherra. Ég held það muni ganga vel, hvort sem það er við umhverfisráðherra eða samgöngumálaráðherra.“
Talaði fyrir aukinni gjaldtöku á ferðamannastöðum
Þórdís Kolbrún segist hafa talað fyrir aukinni gjaldtöku á ferðamannastöðum í prófkjörs- og kosningabaráttunni.
„Það er auðvitað augljóst að það verkefni blasir við og það verður að vinna það. Staðan kallar á uppbyggingu og einhvers konar aðgangsstýringu, það er alveg ljóst,“ segir Þórdís Kolbrún sem tekur þó fram að hún geti ekki enn slegið föstu hvaða stefnu hún taki sem ráðherra.
„Ég er sjálf þeirrar skoðunar að ekki sé endilega betra að greiða uppbygginguna úr sameiginlegum sjóðum, svona heilt yfir, vegna mikilvægis aðgangsstýringarhlutans sem og ég held það geti verið erfitt og snúið að ætla að hafa eitt gjald sama hvert þú ferð.“
Leyfum einstaklingum að stýra þessu
Þórdís Kolbrún nefnir einnig mikilvægi eignarréttarins og að leyfa einstaklingum sem eiga landið að stýra þessu sjálfir.
„Það fyrirkomulag hefur gengið ágætlega á sumum svæðum eins og við Kerið,“ segir Þórdís Kolbrún þó hún sé ekki tilbúin að segja til um hvort það sama verði gert við ríkisjarðir.
„Landsfundarályktunin er þó skýr.“
Vestfirskar ættir stjórnmálaskörunga
Þórdís Kolbrún á ættir að rekja frá stórum hluta af því víðfema kjördæmi sem hún kemur úr, en áhuginn af stjórnmálum er víðar að finna í ættinni.
Amma hennar, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir var þingmaður Kvennalistans, og bróðir hennar, Guðjón Arnar Kristjánsson, oft þekktur sem Addi Kitta Gauj var þingmaður Vestfirðinga fyrir Frjálslynda flokkinn.
„Ég er fædd og uppalin á Akranesi og amma Gerða býr í Mýrartungu í Reykhólasveit þar sem afi var sveitarstjóri þangað til hann lést en þá tók amma við sem oddviti,“ segir Þórdís Kolbrún sem nefnir einnig bróður sinn sem býr á Hvammstanga.
„Rætur mínar liggja allar á Vestfirði. Pabbi er fæddur og uppalinn í Hnífsdal, amma frá Ströndum og afi er frá Ísafirði. Móðurafi minn er frá Ármúla í Ísafjarðardjúpi og amma úr Arnardal.
Ekki af pólítísku heimili
Hún vill þó ekki meina að stjórnmálaáhuginn komi frá fjölskyldunni.
„Ég get nú ekki sagt það, ég er ekki alin upp á pólitísku heimili. Ég er alin upp af einstöku fólki með skýrar og góðar lífsreglur, sem hafa fylgt mér út í lífið,“ segir Þórdís Kolbrún.
„En það er auðvitað skemmtilegt að amma hafi verið á þingi og það hefur einhvern veginn alltaf blundað í mér og svona æxlaðist þetta bara þegar maður er að gera það sem manni finnst skemmtilegt.“