Lagaleg staða lífeyrissjóðanna gagnvart möguleikanum á slitameðferð ÍL-sjóðs og uppgreiðslu annars óuppgreiðanlegra íbúðabréfa hans er afar sterk, að því er fram kemur í drögum að lögfræðiálitum sem vinna er langt komin með fyrir sjóðina samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Eins og fram hefur komið í umræðum síðustu vikna er sjóðunum strangt til tekið óheimilt samkvæmt svokallaðri umboðsskyldu að gefa neitt eftir sem þeir teljast eiga rétt á enda stríddi það gegn hagsmunum umbjóðenda þeirra.

„Ég er alltaf í einhverskonar viðræðum“

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, segir þó ekkert því til fyrirstöðu að sjóðirnir eigi í viðræðum við stjórnvöld um málið.

„Þetta er bara vinnan mín. Ég er alltaf í einhverskonar viðræðum. Ráðherra bað okkur um að eiga við hann samtal og mér þætti mjög skrýtið og ófaglegt svo ekki sé meira sagt ef lífeyrissjóðirnir höfnuðu því.“

Lífeyrissjóðirnir hafi þó ólíkar skoðanir og séu í ólíkri aðstöðu hvað þetta varði, sem geti haft áhrif ekki aðeins á samningsvilja heldur sjálfa túlkun umboðsskyldunnar, enda taki hún til hagstæðustu samsetningar og ávöxtunar eignasafnsins í heild og til lengri tíma.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.