Hæstiréttur komst nýverið að þeirri niðurstöðu að endurskoðandinn Rögnvaldur Dofri Pétursson og BD30 ehf., áður endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið Ernst & Young ehf., þurfi að greiða þrotabúi Sameinaðs Sílikons rúmar 114 milljónir í skaðabætur auk vaxta, vegna sérfræðiskýrslu í tengslum við hlutafjárhækkun síðarnefnda félagsins í lok árs 2016. Þrír aðrir dómar féllu sama dag sem lutu allir að aðkomu Rögnvaldar og Ernst & Young að málum Sameinaðs Sílkon en Rögnvaldur var sýknaður í tveimur þeirra og sýknaður „að svo stöddu“ í einu þeirra.

Hæstiréttur tók málin fyrir af þeim sökum að lagaleg óvissa ríkti um aðild þrotabús að skaðabótamálum vegna hlutafjáraukningar en einnig um ábyrgð endurskoðanda í tengslum við hlutafjáraukningar.

Hæstiréttur sló því föstu í öllum dómunum að þrotabúið væri rétti aðilinn til að krefjast bóta ef það teljist tjón þrotabúsins að hlutafé sé ekki greitt með réttum hætti og að endurskoðandi bæri ábyrgð á að staðfesta hlutafjáraukningar. Rögnvaldur og E&Y voru þó einungis talin hafa sýnt af sér saknæma háttsemi í einu tilviki.

Til eru margir dómar hérlendis sem staðfesta skaðabótaábyrgð endurskoðanda á öðrum atvikum líkt og ársreikningagerð en þessi dómur markar tímamót um að ábyrgð endurskoðanda nái nú til þess að staðfesta hlutafjárhækkanir. Líkt og fram hefur komið hér að ofan voru Rögnvaldur og Ernst & Young dæmd bótaskyld í einu málinu af fjórum en þrjú þeirra voru höfðuð af þrotabúi Sameinaðs Sílikon.

Tveir endanlegir dómar féllu í málefnum þrotabúsins en ekki fékkst endanleg niðurstaða í tengslum við 1,8 milljarða króna hlutafjáraukningu Tomahawk Development á Íslandi hf. og var „sýknað að svo stöddu“. Í þeim dómum þrotabúsins sem endanleg niðurstaða fékkst í var tekist á um tvær ólíkar hlutafjárhækkanir. Í dómnum þar sem E&Y og Rögnvaldur voru sakfelld var deilt um hlutafjáraukningu Sameinaðs Sílikon sem hluthafar samþykktu í nóvember 2016 en USI Holding B.V. var heimilað að skrá sig fyrir 405 milljónum hlutum og greiða fyrir það með hlutafé í félaginu Geysi Capital ehf.

Í tengslum við þessa ráðstöfun unnu Rögnvaldur og E&Y skýrslu þar sem virði Geysis var metið á grundvelli leigusamnings um útleigu lóðar að Stakksbraut 9 að teknu tilliti til áætlaðs rekstrarkostnaðar, skatta og hæfilegrar ávöxtunarkröfu. Heildarvirði félagsins var metið á bilinu 4,7 til 5,2 milljónir evra, sem miðað við gengi evru á þeim tíma var um 438 til 496 milljónir króna. Að mati Rögnvaldar var því eðlilegt að meta og bókfæra allan eignarhlut í Geysi að nafnverði 25,5 milljónir króna á 405 milljónir króna við hlutafjáraukninguna. Samkvæmt dómkvöddum matsmanni var eðlilegt virði og kaupverð hlutafjár í félaginu um 205 til 291 milljón króna.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að það væri á ábyrgð endurskoðandans að staðfesta að virði félagsins væri fullnægjandi. Rögnvaldur og E&Y voru því dæmd til að greiða mismuninn sem nemur 114 milljónum króna en með tilliti til dráttar- og skaðabótavaxta er endanleg greiðsla til þrotabúsins í kringum 240 milljónir.

Samkvæmt því sem Viðskiptablaðið kemst næst er þetta fyrsta mál sinnar tegundar ekki bara á Íslandi heldur á öllum Norðurlöndunum þar sem ábyrgð endurskoðanda á hlutafjáraukningum er staðfest.

Í því máli sem sýknað var í var tekist á um hlutafjáraukningu í peningum en féð sem var lagt til í hlutafjáraukningunni fór inn í félagið en út skömmu síðar í annað félag. Dómurinn er einnig fordæmisgefandi um ábyrgð endurskoðanda en Hæstiréttur taldi Rögnvald og E&Y einnig hafa verið blekkt og því ekki skaðabótaskyld. Endurskoðendur staðfesta hlutafjáraukningar með millifærslukvittun eða bankareikningsyfirliti en í umræddu máli var Rögnvaldur með bankareikningsyfirlit.

Hæstiréttur segir að í langflestum tilfellum skipti ekki máli fyrir endurskoðanda að skoða hvert peningarnir fara eftir að þeir koma inn svo lengi sem það sé staðfest að þeir komi inn í félagið. Í þessu máli er þó tekið fram að það sé í ákveðnum tilfellum hlutverk endurskoðanda að skoða málið lengra ef það eru grunsemdir um að verið sé að greiða í hring milli aðila. Féð sem lagt var til fór úr Sameinuðu Sílikon inn í félag sem hét Pyromet Engineering B.V., sem er félag í Hollandi og skráður eigandi og stjórnarmaður félagsins var Joseph Dignam, sem er fyrrverandi sambýlismaður móður Magnúsar Garðarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sameinaðs silíkons. Hæstiréttur segir þó í málinu að þar sem endurskoðandinn hafði reikninga í höndunum frá Pyromet Engineering var hann einnig blekktur  um að þetta væri í raun skúffufélag. Því voru Rögnvaldur og E&Y sýknuð í því máli.

Sameinað Sílikon

  • Sameinað Sílikon hf. var stofnað í febrúar 2014 en tilgangur félagsins var að byggja og gangsetja kísilmálmverksmiðju í Helguvík.
  • Upphaflega átti að reisa verksmiðju með tveimur ofnum en áformað var að bæta við tveimur síðar. Fullbúin verksmiðja með fjórum ofnum myndi framleiða árlega um 100.000 tonn af kísli.
  • Sameinað Sílikon var í eigu hollenska félagsins United Silicon Holding B.V sem var í eigu tveggja annarra hollenskra félaga, annars vegar USI Holding B.V. sem var í eigu danskra og íslenskra fjárfesta undir forystu Magnúsar Garðarssonar og hins vegar Silicon Mineral Ventures B.V. sem var í eigu hollensks félags, Fondel Holding B.V. Dótturfélög USI Holding B.V. voru Geysir Capital ehf. og Stakksbraut 9 ehf.