Þýski bílaframleiðandinn Volkwagen (VW) tilkynnti í gærkvöldi að hann hyggist skrá dótturfélagið sitt Porsche á markað í lok september eða byrjun október næstkomandi. Um verður að ræða eitt stærsta frumútboð síðustu ára, að því er kemur fram í frétt Wall Street Journal. Hlutabréf VW hafa hækkað um meira en 5% frá opnun markaða í dag.

Greiningaraðilar spá því að Porsche verði metið á 60-85 milljarða evra í útboðinu. Volkswagen hyggst selja 12,5% af hlut sínum í Porsche í útboðinu. Verði útboðsverðið við efri mörk spár greiningaraðila má ætla að félagið fái um 10,6 milljarða evra fyrir söluna. Raungerist það verður þetta stærsta frumútboð evrópsks fyrirtækis frá 10 milljarða dala frumútboði Glencore árið 2011.

Auk þess hyggst VW selja 12,5% hlut í Porsche beint til Porsche Automobil Holding SE, félags í meirihlutaeigu Porsche–Piëch fjölskyldunnar, í formi hlutabréfa með atkvæðisrétti. Með þessu tryggir fjölskyldan, sem er stærsti hluthafi Volkswagen, sér yfirráð yfir lykilákvarðanir Porsche.

Samtals mun Volkswagen því selja 25% hlut í Porsche og hyggst áfram fara með 75% hlut í félaginu. Í tilkynningu VW segir að heppnist frumútboðið vel þá muni stjórn félagsins boða til hluthafafundar í desember þar sem lagt verður til að 49% af söluandvirðinu verði greitt út til hluthafa í byrjun næsta árs.

Þá hefur þjóðarsjóður Qatar lýst yfir áhuga að kaupa 4,99% af almennu hlutafé Porsche og verða þar með hornsteinsfjárfestir í lúxusbílaframleiðandanum.