Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SKE) og áfrýjunarnefndar samkeppnismála um ógildingu á samruna Læknisfræðilegrar myndgreiningar og Íslenskrar myndgreiningar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samkeppniseftirlitsins sem kynnti ákvörðun sína í ágúst 2020.
„Með samrunanum hefði keppinautum á markaðnum fækkað úr þremur í tvo og samanlögð markaðshlutdeild samrunaaðila orðið á bilinu 80-100%, eftir því um hvaða þjónustuþætti er að ræða,“ segir í tilkynningunni.
„Starfsemin hefur mikla þýðingu fyrir heilbrigðisþjónustu á landinu. Samkeppnisröskun á þessu sviði getur verið til þess fallin að draga úr gæðum og hækka kostnað við heilbrigðisþjónustu.
SKE segir að héraðsdómur hafi staðfest mat samkeppnisyfirvalda að við samrunann hefði markaðsráðandi staða myndast eða styrkst, eða samkeppni raskast að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Nánar er fjallað um ágreining samrunaaðila og samkeppnisyfirvalda í frétt SKE.
Ríkið ákveði verðin
Magnús Baldvinsson, röntgenlæknir og eigandi Læknisfræðilegrar myndgreiningar, sagði við Viðskiptablaðið í sumar að það skjóti skökku við að samruninn hafi verið ógildur enda geti fyrirtæki vart talist markaðsráðandi þegar að það er bara einn kaupandi af þjónustunni, Sjúkratryggingar Íslands. Þar að auki starfi fyrirtækið samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, sem ganga framar samkeppnislögum.
„SKE vill meina að þetta sé samkeppnismarkaður, en verðin eru öll föst og fara eftir samningum við SÍ. Það eru í raun engir samkeppnislegir hvatar sem ráða för, það vinna allir á sömu verðum sem eru ákveðin af ríkinu,“ sagði Magnús.
„Fari samruninn í gegn mun það þýða fyrst og fremst aukin sérhæfing og þar með gæði fyrir sjúklinga, aukið öryggi, og aukin afkastageta.“
Takmörkuð staðganga á myndgreiningarþjónustu innan og utan sjúkrahúsa
Læknisfræðileg myndgreining og Íslensk myndgreining byggðu mál sitt m.a. á því að myndgreiningarþjónusta sem veitt er á sjúkrahúsum ætti að teljast til markaða málsins.
Áfrýjunarnefnd féllst á rök Samkeppniseftirlitsins að takmörkuð staðganga væri á milli myndgreiningarþjónustu sem er veitt innan og utan sjúkrahúsa. Héraðsdómur var þessu sammála.