Sam Altman, forstjóri OpenAI, segir í samtali við Bloomberg að fyrirtækið sé ekki til sölu. Hann telur að Elon Musk sé að reyna að hægja á framþróun OpenAI með því að bjóða nærri 100 milljarða dala í félagið.

„Ég tel að hann sé bara að reyna að tefja fyrir okkur. Hann er augljóslega í samkeppni við okkur," sagði Altman í viðtali við Bloomberg fyrr í dag, á gervigreindarráðstefnu í París.

„Ég vildi óska þess að hann myndi keppa við okkur með því að búa til betri vöru. Þetta er búið að vera mikið af leikjum, mikið af málaferlum, og nú kemur þetta upp,“ bætir Altman við.

Musk, ásamt hópi fjárfesta, lagði fram tilboð í OpenAI í gær upp á 97,4 milljarða dala, sem nemur tæplega 14 þúsund milljörðum króna.

Altman gerði lítið úr tilboðinu á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter) í gærkvöldi og lagði þar til að OpenAI myndi kaupa Twitter á 9,74 milljarða dala.

Musk keypti Twitter í október 2022 en breytti svo nafni samfélagsmiðilsins í X.

Langvarandi deilur hafa verið milli Musk og Altman, en þeir komu að stofnun OpenAI árið 2015. Yfirlýst markmið félagsins var að þróa gervigreindartækni „til hagsbóta fyrir mannkynið í heild, án hagnaðarsjónarmiða.“

Altman hefur þó unnið að því að breyta OpenAI úr góðgerðarsamtökum yfir í hagnaðardrifið fyrirtæki. Musk hefur lagst gegn þeirri stefnu og yfirgaf fyrirtækið árið 2019. Musk stofnaði síðan gervigreindarfyrirtækið xAI í mars 2023.

Altman segir, í samtali við Bloomberg, að stjórn OpenAI væri ávallt með framtíðarmöguleika félagsins til skoðunar. Sala á gervigreindarrekstri félagsins stæði þó ekki til boða.

Vorkennir Musk

Altman var að lokum spurður hvort hann teldi að nálgun Musks væri keyrð áfram af óöryggi og efasemdum um xAI.

„Líklega hefur allt hans líf einkennst af óöryggi [...] Ég held að hann sé ekki hamingjusamur og ég vorkenni honum.“

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan: