Kosningaþáttur RÚV um heilbrigðis- og velferðarmál þann 27. og 29. september 2016:
Ragnar Þór Ingólfsson 1. sæti fyrir Dögun í Suðvesturkjördæmi sagði:
„… ég hef heyrt tölur upp á 6,7,8 milljarða“. 27. september 2016
Sigurlaug Oddný Björnsdóttir 2. sæti fyrir Íslensku þjóðfylkinguna sagði:
„… að gera heilbrigðisþjónustuna gjaldfrjálsa alveg gæti kostað þetta 7-8 milljarða“. 27. september 2016
Jón Þór Ólafsson 1. sæti fyrir Pírata í Suðvesturkjördæmi sagði:
„… kostar einhver 6-6,5 milljarða eins og kerfið er núna samkvæmt útreikningum, sumir hafa sagt að það gæti verið upp í 10“. 29. september 2016
Skv. Hagstofu Íslands var fjárframlag einkaaðila í heilbrigðiskerfið tæpir 35 milljarðar árið 2015. Fjárframlag einkaaðila samanstendur af greiðslum sjúklinga, frjálsum framlögum og öðrum liðum en sé tekið mið af tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunnar frá árinu 2014 flokkast 92% af þessum framlögum undir greiðsluþátttöku sjúklinga, þ.e. 32 milljarðar árið 2015.
Í núverandi heilbrigðiskerfi nær greiðsluþátttaka sjúklinga fyrst og fremst til sjúkraþjálfunar, iðjuþjálfunar, tannlækninga, heilsugæslu og sálfræðiþjónustu, hjálpartækja og lyfja.
Það má því gera ráð fyrir því að kostnaður hins opinbera við að gera heilbrigðiskerfið algjörlega gjaldfrjálst muni að minnsta kosti nema 32 milljörðum króna. Aukinheldur má gera ráð fyrir því að í gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi muni eftirspurn aukast og þ.a.l. kostnaðurinn einnig.
Hafa ber í huga að í þessum tölum er ekki að finna kostnað við heimsóknir til sjálfstætt starfandi sálfræðinga sem er að öllu greitt úr vasa einstaklinga né kostnaður við að útrýma biðlistum eftir aðgerðum sem eru bæði atriði sem nefnd hafa verið þegar kemur að gera heilbrigðisþjónustuna gjaldfrjálsa.
Heimildir: Hagstofa Íslands og WHO
Fram að Alþingiskosningum þann 29. október næstkomandi mun Viðskiptablaðið vega og meta ummæli sem frambjóðendur flokkanna láta falla á opinberum vettvangi. Ummælin verða sannreynd og niðurstaðan birt. Þessi liður mun birtast á vefsíðu Viðskiptablaðsins og bera yfirskriftina Staðreyndavogin.