Kosningaþáttur RÚV: Kjördæmafundur – Reykjavík norður, 10 .október 2016
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir , 1.sæti fyrir Samfylkingu (1:17)
„Samfylkingin er ekki að fara að spara á næsta kjörtímabili. Það er búið að skera hér niður árum saman í ríkisrekstri eftir að fjármálakerfið og gjaldmiðillinn hrundu árið 2008.“
Þrátt fyrir niðurskurð opinberra útgjalda fyrstu árin eftir hrun hafa ríkisútgjöld vaxið hratt undanfarin ár og eru útgjöld á mann nú orðin örlítið meiri en þegar mest lét á bóluárinu 2007 og töluvert meiri en árin þar á undan.
Heimildir: Ríkisreikningar og fjárlög 2016
Aukin útgjöld hafa þó ekki öll skilað sér beint í opinbera þjónustu vegna þess að stór hluti útgjaldanna fer í að þjónusta skuldir ríkissjóðs. Vaxtagjöld eru þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs og verður teljast ólíklegt að breyting verði þar á komist til valda flokkar með þá yfirlýstu stefnu að sparnaður í ríkisrekstri sé ekki á dagskrá.
Umræðan um útgjöld ríkisins eftir bankahrunið getur reynst nokkuð villandi. Mikill einskiptiskostnaður féll til vegna efnahagsáfallsins, stórum fjárhæðum var veitt inni í bankakerfið, atvinnuleysi rauk upp, ábyrgðir féllu á ríkissjóð og afskrifa þurfti ýmsar fjárkröfur ríkisins.
Til þess að meta hvort raunverulegu aðhaldi hafi verið beitt í fjárveitingum ríkisins er hægt að skoða heildarútgjöld ríkisins að frádregnum fjármagnskostnaði og öðrum útgjaldaliðum sem ekki eru valkvæðir fyrir fjárveitingarvaldið. Erfitt er að grípa alla þessa liði en með því að draga frá stærstu óreglulegu útgjöldin er hægt að nálgast raunverulegan útgjaldaauka þeirra liða sem ekki sveiflast sjálfkrafa með ytri þáttum, þ.e. þá hefðbundnu málaflokka sem mest er um rætt.
Kemur þá í ljós að útgjöld ríkisins, leiðrétt fyrir ofangreindum atriðum, hafa aukist hratt undanfarin ár og eru nú hærri en öll árin fyrir hrun að undanskildu árinu 2007 og auðvitað 2008 þegar efnahagsáfallið reið yfir. Útgjöldin eru því komin á svipaðar slóðir og rétt fyrir hrun þrátt fyrir að vaxtakostnaður sé mun þyngri byrði nú en þá.
Raunar er það svo að heildarútgjöld hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eru mikil á Íslandi í samanburði við ríki OECD. Sé leiðrétt fyrir mismunandi bótakerfum, en mörg ríki greiða t.a.m. lífeyri beint úr ríkissjóði en ekki úr lífeyrissjóðum líkt og á Íslandi, og atvinnuleysisbótum sem geta ýkt útgjöld ríkja með mikið atvinnuleysi, var Ísland með fjórðu mestu opinberu útgjöldin árið 2014.
Ísland er einfaldlega einna umfsvifamest innan OECD þegar kemur að opinberum útgjöldum og hafa útgjöld verið aukin umtalsvert á undanförnum árum.
Fram að Alþingiskosningum þann 29. október næstkomandi mun Viðskiptablaðið vega og meta ummæli sem frambjóðendur flokkanna láta falla á opinberum vettvangi. Ummælin verða sannreynd og niðurstaðan birt. Þessi liður mun birtast á vefsíðu Viðskiptablaðsins og bera yfirskriftina Staðreyndavogin.