Umræður fyrir Alþingiskosningar um auðlindir og umhverfismál á RÚV 11. október:
Björt Ólafsdóttir . þingmaður Bjartrar framtíðar:
„Elstu álverin hafa verið hér í 20-30 ár. Þau eru búin að fá sína fjárfestingu til baka og það er engin ástæða til að þau verði hér um aldur og ævi.“
Hið rétta er að framleiðsla á áli hófst mun fyrr á Íslandi eða þegar álverið í Straumsvík hóf rekstur árið 1969. En Landsvirkjun var einmitt stofnuð fjórum árum fyrr utan um Búrfellsvirkjun, sem reist var á grunni orkusölu til álversins í Straumsvík.
Alls voru rúm 858 þúsund tonn af áli framleidd á Íslandi árið 2015 í þremur álverum, en Norðurál hóf starfsemi sumarið 1998 og Fjarðaál haustið 2007.
Björt fullyrðir að álverin hafi fengið sínar fjárfestingar til baka og því hafi þau skilað sínu hlutverki, sem er óvenjuleg nálgun á hlutverk fyrirtækja. Fyrirtæki hafa það hlutverk að afla eigendum sínum arði, en ekki eingöngu að borga upp stofnfjárfestingu. Fyrirtæki geta haldið áfram að búa til verðmæti eftir að stofnfjárfesting hefur fengist greidd upp.
Eins horfir hún framhjá þeim 92 milljörðum sem álverin skiluðu inn í hagkerfið árið 2015 í formi kaupa á raforku, kaupa á vörum og þjónustu, greiðslu launa og launatengdra gjalda, skatta og opinberra gjalda og samfélagsstyrkja. Á síðustu árum hefur árlegur innlendur kostnaður álvera numið á bilinu 80-100 milljörðum.
Þá eru álverin ekki hætt fjárfestingum hér á landi. Rio Tinto á Íslandi lauk 60 milljarða fjárfestingarverkefni í fyrra og Norðurál vinnur nú að fimm ára fjárfestingaverkefni upp á á annan tug milljarða.