Ríkið hefur ákveðið að auka útgáfu ríkisskuldabréfa um 30 milljarða króna frá fyrri áætlun. Í lok síðasta árs var áætlað að ríkið myndi gefa út ríkisbréf upp á 120 milljarða króna að söluvirði en nú er útgáfumagn fyrir árið 2024 áætlað um 150 milljarðar króna.

„Þegar útgáfuáætlunin var birt [í lok árs 2023] voru takmarkaðar upplýsingar sem lágu fyrir um þau útgjöld sem gætu fallið á ríkissjóð vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga,“ segir í tilkynningu Lánamála ríkisins.

„Til að mæta þessum útgjöldum hefur verið ákveðið að auka útgáfumagn ríkisbréfa um 30 milljarða króna.“

Útgáfa ríkisbréfa á fyrstu sex mánuðum ársins nam 84 milljörðum króna að söluvirði þannig að útgáfan á seinni helmingi ársins er áætluð 66 milljarðar. Fram kemur að boðin verða til sölu ríkisbréf fyrir 25-35 milljarða króna að söluvirði á þriðja ársfjórðungi.