Almennu útboði Nova fyrir skráningu félagsins í Kauphöllina lauk á föstudaginn. Alls bárust rúmlega 5.000 áskriftir að andvirði um 12 milljarða króna sem samsvarar tæplega tvöfaldri eftirspurn, sé miðað við grunnstærð útboðsins. Ákveðið var að stækka útboðið sem nemur um 20% í þágu áskriftarbókar A, sem náði til boða undir 20 milljónum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Heildarfjöldi hluta sem eru seldir hlutir í útboðinu námu alls tæplega 1,7 milljörðum, eða um 44,5% af útgefnu hlutafé, og heildarsöluandvirði hlutafjárútboðsins nemur um 8,7 milljörðum króna. Endanlegt útboðsgengi í báðum áskriftarbókum nam 5,11 krónum á hlut. Markaðsvirði Nova er um 19,5 milljarðar króna miðað við útboðsgengið.
Fram kemur að fjárfestum verði tilkynnt um úthlutanir í útboðinu eigi síðar en fyrir lok dags mánudaginn 13. júní. Eindagi áskriftarloforða fjárfesta er 16. júní næstkomandi og er ráðgert að afhending hinna nýju hluta til fjárfesta fari fram þann 20. júní. Stefnt er að því að bréf Nova verði tekin til viðskipta í Kauphöllinni þann 21. júní.
„Við úthlutun voru áskriftir almennt skertar um 51% en þó þannig að fylgt var þeim viðmiðum gagnvart áskriftum starfsmanna og viðskiptavina Nova líkt og stefnt var að samkvæmt skilmálum útboðsins,“ segir í tilkynningunni.
Sjá einnig: „Alltaf á tánum“
Tæplega þreföld eftirspurn var eftir þeim hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók A miðað við grunnstærð útboðsins. Seldir hlutir í áskriftarbók A voru um 779 milljónir að söluandvirði um 4 milljarðar króna.
Eftirspurn var eftir ríflega öllum hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók B, sem nær til boða yfir 20 milljónum króna. Seldir hlutir í áskriftarbók B nema 920,1 milljón að nafnverði að söluandvirði um 4,7 milljarðar króna. Áskriftir fjárfesta í áskriftarbók B voru skertar um 12%.
Hugh Short, stjórnarformaður Nova:
„Nú er vel heppnuðu hlutafjárútboði lokið og við fögnum áhuga fjárfesta á félaginu. Í apríl síðastliðnum fór fram hlutafjáraukning þar sem sterkur hópur fjárfesta kom að borðinu. Nú hefur hluthafahópur félagsins styrkst enn frekar með aðkomu almennings og fjölda öflugra stofnanafjárfesta. Við lítum björtum augum til framtíðar og hlökkum til að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu félagsins í samstarfi við nýja hluthafa.“
Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova:
„Við erum hæstánægð að fá að bjóða velkomna um 5.000 manns til að taka þátt í að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu stærsta skemmtistaðar í heimi. Þá er sérstaklega ánægjulegt að sjá þátttöku núverandi viðskiptavina en um 1.500 þeirra tóku þátt í útboðinu. Nú tekur við næsti kafli í sögu Nova sem skráð félag og erum við spennt að hringja bjöllunni þann 21. júní næstkomandi.“
Arion banki hafði umsjón með hlutafjárútboðinu.