Fjármálaráðuneytið hefur ákveðið að selja allan 45,2% eignarhlut sinn í Íslandsbanka með því að virkja heimild til magnaukningar í yfirstandandi útboði með hlut ríkisins í Íslandsbanka, sem lýkur kl. 17 í dag.
„Fordæmalaus eftirspurn innanlands“
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að ákvörðunin sé tekin í ljósi „umtalsverðrar heildareftirspurnar og fordæmalausrar eftirspurnar innanlands“ í útboðinu.
Útboðshlutirnir, með magnaukningunni, munu því verða samtals 850.000.007 almennir hlutir eða 45,2% af útgefnu og útistandandi hlutafé í Íslandsbanka hf. Grunnmagn útboðsins náði til 20% af hlutafé bankans og því er verið að meira en tvöfalda stærð útboðsins.
Miðað við 106,56 króna útboðsgengið í tilboðsbók A má ætla að söluandvirði útboðsins verði að lágmarki 90,6 milljarðar króna.
Ráðuneytið segir að með tilliti til forgangs tilboðsbókar A, sé gert ráð fyrir að fjárfestum verði tilkynnt um úthlutun vegna tilboðsbókar A þann 16. maí 2025 fyrir opnun markaða.
„Komi til þess að frekari hlutir séu í boði eftir úthlutun til einstaklinga, munu fjárfestar í tilboðsbók B og C fá upplýsingar um úthlutun á miðvikudagsmorgun, þann 21. maí nk., með tilliti til þeirra úthlutunarreglna er fram koma í lögum nr. 80/2024.“