Gengi kínverska fyrirtækisins Contemporary Amperex Technology Co Limited (e. CATL), sem framleiðir meira en þriðjung allra rafgeyma í rafbílum sem seldir eru í heiminum, hækkaði um 18% á fyrsta markaðsdegi sínum í Hong Kong í dag.

Á vef BBC segir að frumútboð fyrirtækisins sé það stærsta það sem af er ári en félagið framleiðir meðal annars rafgeyma fyrir Tesla, Volkswagen og Toyota.

Fylgst var náið með skráningu CATL í ljósi tollastríðs milli Kína og Bandaríkjanna sem hefur haft mikil áhrif á bílaframleiðendur. Bandaríska varnarmálaráðuneytið setti fyrirtækið á bannlista í janúar fyrir samstarf sitt við kínverska herinn. CATL neitar þessu og heldur því fram að það hafi verið mistök að setja fyrirtækið á slíkan lista.

CATL er þegar skráð í kínversku kauphöllinni í Shenzhen en þar er fyrirtækið metið á 138,7 milljarða dala. Fyrirtækið er þó mjög háð kínverska markaðnum, sem sér fyrir rúmlega 70% af heildartekjum þess.

Fyrirtækið var stofnað árið 2011 í kínversku borginni Ningde í austurhluta Kína og byrjaði strax að vaxa þökk sé mikilli uppsveiflu í rafbílaiðnaði landsins. Um 100 þúsund starfsmenn vinna hjá fyrirtækinu í 13 framleiðslustöðvum þess um allan heim.