Bandarísk hlutabréf tóku væna dýfu á föstudag og lækkaði S&P 500 vísitalan um 1,7 prósent.

Þrátt fyrir að lækkun undir 2 prósentum ætti ekki eitt og sér að vera ástæða til að kveikja á viðvörunarbjöllum var þetta mesti samdráttur markaðarins síðan í desember í fyrra, þegar Seðlabanki Bandaríkjanna gaf til kynna að hann hygðist halda vöxtum óbreyttum.

Lækkunin náði einnig til fleiri fyrirtækja en til að mynda í uppnáminu í kringum kínverska fyrirtækið DeepSeek og áhrifum þess á væntingar fjárfesta til gervigreindar.

Samkvæmt Unhedged fréttabréfi Financial Times var lækkun föstudagsins þó afar ólík síðustu markaðsdýfum þar sem engin afgerandi ástæða var fyrir þessari lækkun.

Þess í stað var hún afleiðing neikvæðra efnahagsupplýsinga sem hafa hrannast upp að undanförnu.

Á föstudaginn birtust bráðabirgðaniðurstöður úr PMI-könnun sem sýna að efnahagsumsvif í Bandaríkjunum eru nærri því að stöðvast.

Samdráttur var í þjónustugeiranum í fyrsta sinn í rúm tvö ár, sem vóg upp á móti hóflegri aukningu í framleiðslugeiranum.

Hins vegar bendir þróun í nýjum pöntunum hjá framleiðslufyrirtækjum til þess að sú aukning gæti verið skammvinn.

Íbúðamarkaðurinn vestanhafs hefur einnig gefið neikvæð merki frá sér undanfarna daga.

Fjöldi nýrra íbúða og sala á eldra húsnæði dróst töluvert saman, á meðan umsóknir um húsnæðislán minnkuðu lítillega.

Það sem virtist hins vegar vera „stráið sem fyllti mælinn“ var könnun Michigan-háskóla á væntingum neytenda sem birt var á föstudag.

Hún var „einstaklega neikvæð“ samkvæmt FT.

Aðalvísitalan sem háskólinn mælir í kringum væntingar neytenda féll um 9 prósent, sem er mesta lækkun frá apríl í fyrra þegar verðbólgutölur komu markaðnum í opna skjöldu. Lækkunin náði yfir allar breytur, óháð aldurshópum, tekjuflokkum og eignastöðu.

Við þetta má bæta að VIX-vísitalan, sem mælir vænt flökt S&P 500-vísitölunnar samkvæmt verðlagningu á valréttum tengdum henni og gefur vísbendingu um áhættufælni fjárfesta, hefur hækkað um rúm 12% síðastliðinn sólarhring.

Svartsýni á markaði

Þessi þróun gefur til kynna að bandaríska hagkerfið, sem hefur verið á miklu skriði síðustu misseri, gæti verið að kólna hraðar en margir áttu von á.

Sú þróun er í mikilli andstöðu við væntingar sumra fjárfesta um öflugan hagvöxt í forsetatíð Donalds Trump.

Samkvæmt fjárfestabréfi FT er þó hægari hagvöxtur ekki endilega slæmur í sjálfu sér, þar sem hann getur dregið úr verðbólguþrýstingi.

Hins vegar virðist markaðurinn hafa áhyggjur af möguleikanum á verri atburðarás: stöðnun ásamt áframhaldandi verðbólgu, eða svokallaðri kyrrstöðuverðbólgu (e. stagflation).

Vísbendingar um þessa hættu má finna í þróun verðbólguvæntinga á föstudaginn.

Hin svokallaða „Break-even“ verðbólguvísitala, sem mælir markaðsvæntingar um verðbólgu, lækkaði þvert á gjalddaga ríkisskuldabréfa á föstudaginn.

Áhyggjur af tollum aukast

Undirliggjandi í efnahagsgögnum síðustu viku voru einnig vaxandi áhyggjur af áhrifum tolla á verðlag.

Framleiðendur sem tóku þátt í PMI-könnuninni greindu frá hærri aðfangakostnaði, sem þeir „nánast undantekningalaust kenndu tollum og tengdum verðhækkunum birgja“ um, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.

Jafnframt sýndi könnunin á væntingum neytenda fram á aukna hræðslu almennings um áhrif tollastefnu á verðlag neysluvara.

Stærsta einstaka lækkunin í könnuninni var 19 prósenta lækkun í væntingum á hagstæðum kaupum á dýrum varningi, sem Joanne Hsu, ábyrgðarmaður könnunarinnar við Michigan-háskóla, rakti beint til „ótta um yfirvofandi verðhækkanir vegna tolla“.

Á vinnumarkaði er staðan enn stöðug, en margir óttast að hún versni.

Umsóknir um atvinnuleysisbætur jukust lítillega í síðustu viku, í samræmi við óstöðuga þróun undanfarnar vikur.

Samkvæmt FT eru uppsagnir sem tengjast niðurskurði DOGE-ráðuneytisins sem Elon Musk stýrir ekki enn komnar fram í gögnunum.

Torsten Slok, aðalhagfræðingur hjá eignastýringarfyrirtækinu Apollo, hefur varað við því að þessi niðurskurður gæti sent allt að eina milljón manna á atvinnuleysisskrá, sem samsvarar 15 prósenta aukningu á atvinnuleysi í Bandaríkjunum.

Fundir peninga­stefnu­nefndar „sýning á hliðar­línunni“

Í fjárfestabréfi FT segir að markaðurinn hafi enn ekki brugðist að fullu við fyrirhugaðri tollastefnu Trump né afleiðingum fjöldauppsagna.

Hugsanlegt er að fjárfestar séu að bíða eftir frekari skýringum á áhrifum tollanna og efnahagslegum afleiðingum niðurskurðarins.

Hins vegar, ef hægari hagvöxtur, áframhaldandi verðhækkanir og vaxandi atvinnuleysi koma saman, gæti markaðurinn brugðist harkalega við.

Samkvæmt Unhedged-fréttabréfinu eru vaxtastefnufundir Seðlabanka Bandaríkjanna þessa dagana aðeins „sýning á hliðarlínunni“ – raunverulegu efnahagsáhætturnar eru á sviði ríkisfjármála.

Spurningin er þá hvort markaðurinn bregðist nógu neikvætt við til að hafa hemil á stefnu forsetans.