Sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) Pegasus Europe hefur tilkynnt um að það muni leggja upp laupana og skila hlutafé aftur til fjárfesta í byrjun maí þar sem ekki tókst að finna félag í fjármálageiranum til að sameinast.

Pegasus Europe sótti 484 milljónir evra, eða um 72 milljarða króna í aðdraganda skráningar á markað árið 2021. Tveir fjárfestar höfðu einnig skuldbundið sig til að leggja fram allt að 100 milljónir evra til viðbótar ef samningur um yfirtöku myndi nást.

Meðal hornsteinsfjárfesta SPAC-félagsins eru Financière Agache, fjárfestingarfélag Bernard Arnault, ráðandi hluthafa tískurisans LVMH og ríkasta manns heims samkvæmt Forbes, ásamt Jean Pierre Mustier, fyrrum forstjóra UniCredit.

Pegasus Europe horfði til evrópska fjármálaþjónustugeirans en SPAC-félagið telur að þar leynist tækifæri með aukinni samþjöppun og stafrænni væðingu.

Sérhæfða yfirtökufélaginu tókst hins vegar ekki að finna félag til að sameinast á rétta verðinu, sér í lagi eftir að seðlabankar byrjuðu að hækka stýrivexti, samkvæmt þremur heimildarmönnum Financial Times. Pegasus hafði skoðað fjölmörg fyrirtæki á sviði eignastýringar, greiðslumiðlunar og fjártækni og gert tilboð í allt að tíu þeirra.

Sérhæfðum yfirtökufélögum, sem sækja fjármagn við skráningu á markað áður en leitað er að óskráðu fyrirtæki til að sameinast, fjölgaði verulega í byrjun kórónuveirufaraldursins og þá einkum í Bandaríkjunum. Meðal fyrirtækja sem hafa farið á markað með samruna við SPAC-félög eru Alvotech og Oculis.

Sérhæfðum yfirtökufélögum hefur hins vegar gengið erfiðlega á síðustu misserum vegna krefjandi aðstæðna a fjármálamörkuðum. Í umfjöllun FT segir að tugum milljarða dala hafi verið skilað til hluthafa SPAC-félaga á undanförnum mánuðum.