Þýsk stjórnvöld hafa samþykkt umfangsmiklar breytingar á fjármálareglum landsins sem fela í sér aukna skuldsetningu til fjárfestinga í innviðum og varnarmálum.

Ákvörðunin, sem er talin ein sú stærsta í þýskri efnahagsstefnu frá endursameiningu landsins og hefur valdið miklum viðbrögðum á fjármálamörkuðum.

Ávöxtunarkrafa tíu ára þýskra ríkisskuldabréfa hækkaði um 0,3% í kjölfar fréttanna í gær og stendur nú í 2.864 prósentum. Mun þetta vera mesta dagsbreyting á ávöxtunarkröfunni á tíu ára bréfunum síðan 1997.

Fjárfestar hafa brugðist við með því að selja ríkisskuldabréf í trausti þess að aukin ríkisútgjöld muni örva hagvöxt.

Samkomulagið, sem Friedrich Merz (CDU), verðandi kanslari Þýskalands, náði við jafnaðarmenn (SPD), felur í sér þrjár meginbreytingar:

  • Undanþága frá stjórnarskrárbundnum skuldareglum fyrir varnarmál, þannig að útgjöld umfram eitt prósent af landsframleiðslu teljast ekki með í skuldaþaki.
  • Stofnun 500 milljarða evra fjárfestingasjóðs utan fjárlaga til að fjárfesta í innviðum.
  • Slökun á skuldareglum fyrir einstök sambandsríki Þýskalands.

Áhrif á hagvöxt og fjármálamarkaði

Hagfræðingar telja að þessar breytingar gætu haft veruleg áhrif á þýskan hagvöxt.

Deutsche Bank hefur lýst þessu sem „einni mestu hugmyndafræðilegu stefnubreytingu í þýskri hagstjórn frá síðari heimsstyrjöld“ og Goldman Sachs spáir að hagvöxtur Þýskalands gæti aukist í 2% á næsta ári, samanborið við fyrri spá bankans upp á 0,8%.

Áhrifin eru þegar farin að koma fram á mörkuðum. Gengi evrunnar hækkaði um 1,2% gagnvart Bandaríkjadal og stendur nú í 1,08 dal.

Þýski hlutabréfamarkaðurinn rauk upp, þar sem innviðafyrirtæki og varnarmálafyrirtækið hækkuðu mest. Heidelberg Materials hækkaði um 15%, Siemens Energy um 9% og Rheinmetall, stærsta varnarmálafyrirtæki Þýskalands, hækkaði um nær 5%.

Gengi Rheinmetall hefur hækkað um tæp 19% síðastliðna fimm daga.

Keðjuverkun á alþjóðlegum mörkuðum

Ákvörðun þýskra stjórnvalda hefur ekki einungis áhrif á innanlandsmarkaði heldur hefur hún einnig valdið fjármagnsflæði um allan heim.

Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hækkaði í nokkrum öðrum löndum, þar á meðal í Japan, þar sem ávöxtunarkrafa tíu ára skuldabréfa hækkaði í 1,5% sem er hæsta gildi kröfunnar frá 2009.

Þessi þróun hefur vakið vangaveltur um að Seðlabanki Japans gæti hækkað vexti fyrr en áður var talið.

Þessi viðsnúningur í þýskri fjármálastefnu markar einnig pólitísk tímamót. Efnahagslegt hlutverk Þýskalands innan Evrópu gæti stóraukist, enda er um að ræða mestu ríkisútgjöld Þjóðverja frá sameiningu landsins 1990.

Merz hefur þegar lagt til að breytingarnar verði samþykktar í þinginu innan mánaðar, áður en nýr þingheimur tekur við.

Samkomulagið gæti þó orðið pólitískt flókið þar sem það krefst samþykkis Græningja til að ná tveimur þriðju hlutum meirihluta fyrir stjórnarskrárbreytingum. Þó hafa margir sérfræðingar spáð því að flokkurinn muni á endanum styðja tillögurnar.

Nýtt hlutverk Þýskalands í Evrópu

Í leiðara Financial Times í gær sem bar heitið „endurvakning Þýskalands“ var ákvörðun þýskra stjórnvalda fagnað, þar sem Evrópa þurfi á því að halda að Berlín axli aukna ábyrgð bæði í efnahags- og öryggismálum.

Samkomulagið sýni að Þýskaland sé reiðubúið að bregðast hratt við nýjum aðstæðum í alþjóðamálum, sérstaklega í ljósi breyttra viðhorfa Bandaríkjanna undir stjórn Donalds Trump.

Markaðir hafa þegar gefið skýr skilaboð um að þeir telji þessa breytingu jákvæða fyrir hagkerfi Evrópu.

Þó lánsfjárkostnaður Þýskalands og annarra evruríkja hækki, mun jákvæð efnahagsleg þróun og aukin eftirspurn vega upp á móti því.

Nú er beðið eftir því hvort þýsk stjórnvöld muni fylgja eftir yfirlýsingum sínum með skýrum aðgerðum til að tryggja að þessi auknu útgjöld nýtist eins og til er ætlast.