Þúsundir opinberra starfsmanna hafa efnt til mótmæla um götur Norður-Írlands í einu stærsta verkfalli þar í manna minnum. Hjúkrunarfræðingar, kennarar, strætóbílstjórar, umönnunaraðilar, ræstingafólk og aðrir lögðu niður störf í gær í miðri deilu sem hefur lamað stjórnvöld. The Guardian greinir frá.

Áætlað er að um 150.000 verkamenn hafi tekið þátt í verkfallinu sem stóð í um sólarhring og olli víðtækri truflun í samfélaginu. Mótmælendur úr 16 verkalýðshreyfingum gengu um með skilti í borgunum Belfast, Enniskillen og Omagh.

„Fólk er orðið mjög reitt. Við höfum fengið nóg. Það vill enginn vera hérna úti í þessu frosti að berjast fyrir launajafnrétti, en við erum orðin þreytt á því að þurfa að biðja um jafnrétti,“ segir Paul Andrews, útibúsformaður Unison-sjúkrahússins í Belfast.

Um 80% af öllum opinberum starfsmönnum tóku þátt í verkfallinu sem varð til þess að loka þurfti skólum og stóðu strætisvagnar iðjulausir á vegum sem fengu heldur ekki aðhlynningu frá vegagerðarmönnum.

Verkfallið á sér rætur að rekja til kosninga sem haldnar voru árið 2022. Það ár vann Sinn Féin, flokkur lýðveldissinna á Norður-Írlandi, sögulegan sigur í þingkosningunum sem fóru fram 5. maí það ár. Lýðræðislegi sambandsflokkurinn (DUP) vildi ekki deila valdi með flokknum og kom þá upp pattstaða á norður-írska þinginu.

Þetta hefur orðið til þess að opinberir starfsmenn á Norður-Írlandi hafa ekki fengið launahækkanir eins og aðrir opinberir starfsmenn á Bretlandseyjum.

Í desember bauðst breska ríkisstjórnin til að greiða 600 milljónir punda af þeim 3,3 milljörðum punda sem opinberir starfsmenn fara fram á, en gegn því skilyrði að norður-írska þingið tæki aftur til starfa. DUP hefur hins vegar haldið áfram að sniðganga þingið og hafa verkalýðsfélögin borið ástandið saman við gíslatöku til að ná fram pólitískum markmiðum í tengslum við Brexit-deiluna.