Rekom sem rekur 146 bari og skemmtistaði í Danmörku, Noregi og Finnlandi, tapaði 563 milljónum danskra króna í fyrra sem samsvarar um 11 milljörðum íslenskra króna.
Samkvæmt Børsen átti samstæðan einnig 53 bari og skemmtistaði í Bretlandi í ársbyrjun 2023 en félagið hefur neyðst til að loka 30 stöðum og selja 23 staði.
Eigið fé samstæðunnar var neikvætt um 160 milljónir danskra króna en eigendur hafa verið að vinna í endurfjármögnun skulda ásamt því að leggja félaginu til meira fé.
„Þegar við lítum til baka á árið 2023 er engin ástæða til að pakka saman. Árið var erfitt rekstrarlega og tók á hjá fyrirtækinu,“ skrifar Adam Falbert, forstjóri Rekom, í ársreikningnum.
Falbert stofnaði Rekom árið 2007 en eignarstýringarfélagið Catacap er meirihlutaeigandi þess í dag.
Tekjur samstæðunnar drógust saman um 9% á milli ára og námu 2 milljörðum danskra króna sem samsvarar um 40 milljörðum íslenskra króna. Mun það vera um 300 milljónum danskra króna minna en greiningaraðilar höfðu búist við.
EBITDA félagsins var 302 milljónir danskra sem er um 163 milljónum minna en afkomuspá félagsins fyrir árið.
Rekom þurfti einnig að afskrifa skuldir fyrir um 317 milljónir danskra króna og þá nam ófyrirséður kostnaður vegna endurskipulagningar félagsins um 54 milljónum danskra króna.
Samkvæmt Børsen hafa eigendur lagt félaginu til um 60 milljónir danskra króna á árinu og þá hafa kröfuhafar breytt um 343 milljónum danskra króna skuldum í hlutafé í fyrirtækinu.