Rekom sem rekur 146 bari og skemmti­staði í Dan­mörku, Noregi og Finn­landi, tapaði 563 milljónum danskra króna í fyrra sem sam­svarar um 11 milljörðum íslenskra króna.

Sam­kvæmt Børsen átti sam­stæðan einnig 53 bari og skemmti­staði í Bret­landi í ársbyrjun 2023 en fé­lagið hefur neyðst til að loka 30 stöðum og selja 23 staði.

Eigið fé sam­stæðunnar var nei­kvætt um 160 milljónir danskra króna en eig­endur hafa verið að vinna í endur­fjár­mögnun skulda á­samt því að leggja fé­laginu til meira fé.

„Þegar við lítum til baka á árið 2023 er engin á­stæða til að pakka saman. Árið var erfitt rekstrar­lega og tók á hjá fyrir­tækinu,“ skrifar Adam Fal­bert, for­stjóri Rekom, í árs­reikningnum.

Fal­bert stofnaði Rekom árið 2007 en eignar­stýringar­fé­lagið Cata­cap er meiri­hluta­eig­andi þess í dag.

Tekjur sam­stæðunnar drógust saman um 9% á milli ára og námu 2 milljörðum danskra króna sem sam­svarar um 40 milljörðum ís­lenskra króna. Mun það vera um 300 milljónum danskra króna minna en greiningar­aðilar höfðu búist við.

EBITDA fé­lagsins var 302 milljónir danskra sem er um 163 milljónum minna en af­komu­spá fé­lagsins fyrir árið.

Rekom þurfti einnig að af­skrifa skuldir fyrir um 317 milljónir danskra króna og þá nam ó­fyrir­séður kostnaður vegna endur­skipu­lagningar fé­lagsins um 54 milljónum danskra króna.

Sam­kvæmt Børsen hafa eig­endur lagt fé­laginu til um 60 milljónir danskra króna á árinu og þá hafa kröfu­hafar breytt um 343 milljónum danskra króna skuldum í hluta­fé í fyrir­tækinu.