Síðasti mánuður var metmánuður þegar kemur að kaupum á íbúðarhúsnæði en þá voru 1.488 slíkir samningar gerðir. Sú tala tekur að vísu aðeins til kaupsamninga sem þegar hefur verið þinglýst og því mögulegt að talan kunni að vera hærri. Þetta kemur fram á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Mælingar á gerðum samningum hófust árið 2006 og hefur fjöldi samninga aldrei verið meiri. Fyrra met er frá því í september 2020 og þar áður í júní 2007. Marsmánuður var þriðji stærsti mánuður sögunnar á höfuðborgarsvæðinu en metið á landsbyggðinni var slegið um 14%. Samkvæmt HMS féllu met á Suðurnesjum, Suðurlandi og Norðausturlandi auk þess að metjöfnun varð á Vesturlandi.

„Undanfarna mánuði hafa nokkur met verið slegin um sölu fasteigna miðað við árstíma en nú er um að ræða met óháð árstíma. Það er því óhætt að segja að árið hafi byrjað með látum og það sé enn þá mikið líf á fasteignamarkaði,“ segir í frétt HMS.