Sænski vogunarsjóðurinn Cervian Capital, stærsti hluthafi í námsbókaútgáfunnar Pearson, vill færa skráningu félagsins frá Kauphöllinni í Lundúnum og til Bandaríkjanna.
Mikill flótti hefur verið úr Kauphöllinni í Lundúnum að undanförnu ásamt því að bresk fyrirtæki eins og ARM hafa séð hag sínum betur af því að fara í frumútboð hinum megin við Atlantshafið.
Christer Gardell, stofnandi Cervian Capital sem er stærsti áhrifafjárfestir í Evrópu, segir í samtali við Bloomberg að það væri betra fyrir hluthafa Pearson ef félagið væri í Bandaríkjunum enda flestir viðskiptavinir og keppninautar þess þar.
Tveir þriðju hluti af 3,8 milljarða punda tekjum Pearson komu frá Bandaríkjunum í fyrra.
„Pearson er bandarískt fyrirtæki og meirihluti tekna og stjórnenda eru þar,“ segir Gardell. „Það eru einungis sögulegar ástæður fyrir því að félagið er skráð í Lundúnum.“
Mun þetta vera í annað sinn sem Gardell ýtir félagi úr FTSE 100 vísitölunni til Bandaríkjanna á skömmum tíma en Cervian átti stóran þátt í að ýta byggingarvörufyrirtækinu CRH frá Lundúnum til New York í september.
CRH var meðal stærstu fyrirtækja í FTSE 100 vísitölunni.
Ferðaskrifstofan Tui, sem er í FTSE 250, greindi nýverið frá því að félagið hyggst skrá sig alfarið í Kauphöllina í Frankfurt og þá er Flutter, áður Paddy Power Betfari, að íhuga tvískráningu í Lundúnum og New York.