Sænski vogunar­sjóðurinn Cervian Capi­tal, stærsti hlut­hafi í náms­bóka­út­gáfunnar Pear­son, vill færa skráningu fé­lagsins frá Kaup­höllinni í Lundúnum og til Banda­ríkjanna.

Mikill flótti hefur verið úr Kaup­höllinni í Lundúnum að undan­förnu á­samt því að bresk fyrir­tæki eins og ARM hafa séð hag sínum betur af því að fara í frumút­boð hinum megin við At­lants­hafið.

Christer Gar­dell, stofnandi Cervian Capi­tal sem er stærsti á­hrifa­fjár­festir í Evrópu, segir í sam­tali við Bloom­berg að það væri betra fyrir hlut­hafa Pear­son ef fé­lagið væri í Banda­ríkjunum enda flestir við­skipta­vinir og keppni­nautar þess þar.

Tveir þriðju hluti af 3,8 milljarða punda tekjum Pear­son komu frá Banda­ríkjunum í fyrra.

„Pear­son er banda­rískt fyrir­tæki og meiri­hluti tekna og stjórn­enda eru þar,“ segir Gar­dell. „Það eru einungis sögu­legar á­stæður fyrir því að fé­lagið er skráð í Lundúnum.“

Mun þetta vera í annað sinn sem Gar­dell ýtir fé­lagi úr FTSE 100 vísi­tölunni til Bandaríkjanna á skömmum tíma en Cervian átti stóran þátt í að ýta byggingar­vöru­fyrir­tækinu CRH frá Lundúnum til New York í septem­ber.

CRH var meðal stærstu fyrir­tækja í FTSE 100 vísitölunni.

Ferða­skrif­stofan Tui, sem er í FTSE 250, greindi ný­verið frá því að fé­lagið hyggst skrá sig al­farið í Kaup­höllina í Frankfurt og þá er Flutter, áður Paddy Power Bet­fari, að í­huga tví­skráningu í Lundúnum og New York.