Fjár­festinga­fé­lagið Gavia Invest ehf., stærsti hlut­hafi Sýnar hf., er ekki lengur með nein fram­virk við­skipti með hluta­bréf Sýnar eftir að fé­lagið öðlaðist ný­verið bein yfir­ráð yfir 1.000.000 hlutum í Sýn hf., sem áður voru í fram­virkum samningum. Kaup­verðið var 33,8 krónur á hlut sem miðast við dagsloka­gengi Sýnar á fimmtu­daginn. Dagsloka­gengi Sýnar á föstu­daginn var 34,4 krónur.

Gavia Invest á því rúm­lega 43 milljón hluti í Sýn sem nemur 17,42%. Gavia Invest varð stærsti hlut­hafi Sýnar í júlí 2022 þegar fé­lagið keypti 14,95% hlut í fjar­skipta­fé­laginu á 2,6 milljarða á þá­verandi markaðs­gengi.

Í kaup­hallar­til­kynningu gær­dagsins segir að eftir breytinguna eigi fé­lög tengd Hákoni Stefáns­syni og Ragnari Páli Dyer, stjórnar­mönnum Sýnar og Gavia Invest, bein yfir­ráð yfir sam­tals 57.947.128 hlutum í Sýn og svarar það til 23,4% út­gefins hluta­fjár.

Sam­kvæmt síðasta árs­reikningi er Gavia Invest í 80% eigu Info­Capi­tal, fjár­festinga­fé­lags Reynis Grétars­sonar. E&S 101 ehf., fé­lag sem er í eigu Jon­a­t­han R. Ru­bini, Andra Gunnars­sonar og Mark Kroloff, á 16,7% og Por­doi ehf., fjár­festinga­fé­lags Jóns Skafta­sonar, á 2,67%.

Info­Capi­tal, fjár­festinga­fé­lag Reynis Grétars­sonar, er einn stærsti hlut­hafi Creditin­fo. Reynir, stofnandi og fyrrum for­stjóri Creditin­fo, seldi árið 2021 meiri­hluta í fyrir­tækinu til banda­ríska fram­taks­sjóðsins Levine Leicht­man Capi­tal Partners. Síðan þá hefur Reynir fjár­fest í Kviku banka, Arion banka og Icelandair.

E&S 101 er sjöundi stærsti hlut­hafi fast­eigna­fé­lagsins Kalda­lóns. Jon­a­t­han B. Ru­bini, ríkasti maður Alaska-fylkis í Banda­ríkjunum, fjár­festi fyrst í fé­laginu fyrir um 360 milljónir í júní árið 2021.