Fjárfestingafélagið Gavia Invest ehf., stærsti hluthafi Sýnar hf., er ekki lengur með nein framvirk viðskipti með hlutabréf Sýnar eftir að félagið öðlaðist nýverið bein yfirráð yfir 1.000.000 hlutum í Sýn hf., sem áður voru í framvirkum samningum. Kaupverðið var 33,8 krónur á hlut sem miðast við dagslokagengi Sýnar á fimmtudaginn. Dagslokagengi Sýnar á föstudaginn var 34,4 krónur.
Gavia Invest á því rúmlega 43 milljón hluti í Sýn sem nemur 17,42%. Gavia Invest varð stærsti hluthafi Sýnar í júlí 2022 þegar félagið keypti 14,95% hlut í fjarskiptafélaginu á 2,6 milljarða á þáverandi markaðsgengi.
Í kauphallartilkynningu gærdagsins segir að eftir breytinguna eigi félög tengd Hákoni Stefánssyni og Ragnari Páli Dyer, stjórnarmönnum Sýnar og Gavia Invest, bein yfirráð yfir samtals 57.947.128 hlutum í Sýn og svarar það til 23,4% útgefins hlutafjár.
Samkvæmt síðasta ársreikningi er Gavia Invest í 80% eigu InfoCapital, fjárfestingafélags Reynis Grétarssonar. E&S 101 ehf., félag sem er í eigu Jonathan R. Rubini, Andra Gunnarssonar og Mark Kroloff, á 16,7% og Pordoi ehf., fjárfestingafélags Jóns Skaftasonar, á 2,67%.
InfoCapital, fjárfestingafélag Reynis Grétarssonar, er einn stærsti hluthafi Creditinfo. Reynir, stofnandi og fyrrum forstjóri Creditinfo, seldi árið 2021 meirihluta í fyrirtækinu til bandaríska framtakssjóðsins Levine Leichtman Capital Partners. Síðan þá hefur Reynir fjárfest í Kviku banka, Arion banka og Icelandair.
E&S 101 er sjöundi stærsti hluthafi fasteignafélagsins Kaldalóns. Jonathan B. Rubini, ríkasti maður Alaska-fylkis í Bandaríkjunum, fjárfesti fyrst í félaginu fyrir um 360 milljónir í júní árið 2021.