Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, LSR, keypti í gær 10 milljónir hluta, eða um 0,6% hlut, í Vátryggingafélagi Íslands (VÍS) samkvæmt flöggunartilkynningu sem var send út í kvöld. Miðað við dagslokagengi VÍS í gær má ætla að kaupverðið hafi verið í kringum 175 milljónir króna.

A-deild LSR fer með 8,83% hlut í VÍS í kjölfar viðskiptanna og B-deildin á 1,68% hlut. LSR er stærsti hluthafi VÍS með samtals 10,5% hlut sem er um 3,2 milljarðar króna að markaðsvirði.

Skel fjárfestingarfélag er næst stærsti hluthafi félagsins með 8,97% hlut sem er 2,7 milljarðar að markaðsvirði. Tilkynnt var í apríl 2022 að Skel hefði eignast 7,3% hlut í VÍS og hefur fjárfestingarfélagið haldið áfram að stækka hlut sinn í tryggingafélaginu á síðustu mánuðum.

Gildi lífeyrissjóður er þriðji stærsti hluthafi VÍS með 8,95% hlut. Sjávarsýn, fjárfestingarfélag Bjarna Ármannssonar, kemur þar á eftir með 7,53% hlut. Sjávarsýn bætti við sig 2,5% hlut í VÍS í fyrra.

Forstjóraskipti í síðustu viku

Vika er síðan stjórn VÍS tilkynnti um að forstjórinn Helgi Bjarnason hefði látið af störfum en Guðný Helga Herbertsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu, tók tímabundið við stöðunni. Stjórnin hyggst ráða nýjan forstjóra á næstunni.

„Það er mat stjórnar VÍS að nú sé rétti tíminn til að gera breytingar á hlutverki forstjóra og hefja nýjan kafla á þeim góða grunni sem lagður hefur verið. VÍS þarf að vera í sífelldu breytingaferli til þess að geta verið skrefinu á undan í þróun trygginga- og fjármálamarkaða á Íslandi. Forstjóraskipti nú eru hluti af því ferli,“ sagði í tilkynningunni.

Stjórnin sagðist hafa markað sér stefnu um að gera VÍS að vænlegri fjárfestingarkosti á markaði með skýrri sýn á vöxt, þróun og fjármagnsskipan. VÍS stefni á að verða virkur þátttakandi í þróun fjármálastarfsemi á Íslandi, m.a. þegar kemur að eignastýringu en félagið stofnaði nýlega eignastýringafélagið SIV.

Stærstu hluthafar VÍS 15. janúar 2023

Hluthafi Fjöldi hluta Í %
LSR A- og B-deild (16. jan) 184.000.000 10,51%
Skel fjárfestingafélag hf. 156.587.657 8,97%
Gildi - lífeyrissjóður 156.587.657 8,95%
Sjávarsýn ehf. 131.825.000 7,53%
Frjálsi lífeyrissjóðurinn 127.705.313 7,30%
LIVE 113.723.596 6,50%
Stapi lífeyrissjóður 75.412.997 4,31%
Birta lífeyrissjóður 64.508.636 3,69%
Brú Lífeyrissjóður 60.282.691 3,44%
IS EQUUS Hlutabréf 42.956.129 2,45%
VÍS 41.300.000 2,36%
IS Hlutabréfasjóðurinn 36.629.622 2,09%
Lífsverk lífeyrissjóður 32.662.820 1,87%
LsRb 29.019.520 1,66%
Akta Stokkur hs. 23.273.871 1,33%
Vanguard Total International S 21.347.759 1,22%
Arion banki hf. 21.117.859 1,21%
Vindhamar ehf. 19.800.000 1,13%
Miranda ehf. 19.268.469 1,10%
Heimild: VÍS & flöggunartilkynning. Ath. eignarhlutur LSR miðar við 16. janúar 2023 en annarra hluthafa við 15. janúar.