Nova Acquisition Holding ehf., stærsti hluthafi Nova seldi í morgun öll hlutabréf sín í fyrirtækinu. Félagið er í eigu sjóðs í stýringu fjárfestingafélagsins Pt. Capital frá Alaska.
Nova Acquisition Holding seldi 11,1% hlut sinn í Nova sem nam 424.495.186 hlutabréfum á genginu 4,8 krónur á hlut fyrir alls um tvo milljarða króna.
Framkvæmdastjóri Pt. Capital er Hugh Short, sem var stjórnarformaður Nova fram að aðalfundi félagsins. Þá sóttist Short eftir endurkjöri en náði ekki kjöri þar sem hann naut ekki stuðnings meirihluta annarra hluthafa félagsins.
Talsverðar óánægju gætti meðal stórra hluthafa í Nova vegna hlutafjárútboðs og skráningar félagsins á markað síðasta sumar. Meðal annars var það vegna ákvörðunar um að stækka frumútboð Nova.
Í útboðinu var útboðið stækkað um 20%, alfarið í þágu A-bókar en áskriftir í B-bók, þ.e. fyrir stærri fjárfesta rétt fullnægðu stærð útboðsins. Enda tóku bréf í Nova dýfu í kjölfar útboðsins en gengið í frumútboðinu nam 5,11 krónum á hlut.
Í viðtali við Viðskiptablaðið í október sagði Short að Pt. Capital hyggðist ekki selja 11% hlut sinn í Nova á næstunni. Þá stóð gengi bréf félagsins í ríflega 4 krónum á hlut.
„Ég hef heyrt að sumir fjárfestar bíði nú eftir að við seljum okkur út úr Nova. Við ætlum ekki að selja á næstunni þó að við gætum það, þar sem sölubanninu (e. lock-up period) er lokið. Ég tel að þetta sé góð fjárfesting fyrir okkur. Ég sé fram á við munum fylgja eftir félaginu, að minnsta kosti næstu tvö árin,“ sagði Short í október.