Alecta, stærsti lífeyrissjóður Svíþjóðar, hefur hafið málsmeðferð fyrr gerðardómi gegn dótturfélagi Hemstaden AB vegna hluthafasamkomulags sem snýr að Heimstaden Bostad, leigufélags í stýringu Heimstaden AB.

Þetta kemur fram í kauphallartilkynningu Heimstaden AB.

Alecta er stærsti hluthafi Heimstaden Borstad með 39,4% hlut. Lífeyrissjóðurinn hefur fjárfest fyrir 49 milljarða sænskra króna, eða sem samsvarar 4,6 milljörðum dala, í leigufélaginu. Lífeyrissjóðurinn færði niður virði eignarhlutarins, sem er stærsta einstaka eign í eignasafni Alecta, um 25% í fyrra og var hann metinn á 38 milljarða sænskra króna í árslok 2023.

Alecta heldur því fram að aðaleigandi Heimstaden AB - Fredensborg AS, félag Norðmannsins Ivar Tollefsen - hafi brotið gegn skilmálum hluthafasamkomulagsins með stofnun fasteignasjóðsins Heim Global Investor AB sem starfi á sama samkeppnismarkaði og Heimstaden Bostad.

Heimstaden AB segist ósammála mati Alecta og bætir við að Heimstaden Bostad sé ekki virkt á sviði sjóðastýringar og að fjárfestingar Heim Global Investor sjóðsins falli undir undanþágu frá ákvæði í samkomulagi um skuldbindingu um að taka ekki þátt í samkeppni (e. (e. non-compete undertaking).

Annar forstjóra Heimstaden AB segir í tilkynningunni að það sé miður að ekki hafi verið hægt að ljúka málinu á friðsamlegan hátt. Hann áréttar að félagið og lögfræðilegir ráðgjafar telji að niðurstaða gerðardómsins verði Heimstaden í hag.

Skipurit og eignarhald Heimstaden Bostad. Mynd tekin af heimasíðu leigufélagsins.

Í umfjöllun sænska viðskiptamiðilsins Dagens Industri segir að hluthafasamkomulagið hafi verið gagnrýnt á undanförnum árum fyrir að vera mjög hagfellt fyrir Tollefsen. Hann haldi til að mynda á meirihluta atkvæðaréttar Heimstaden Bostad, fái greitt fyrir að reka fyrirtækið og sé eini hluthafi félagsins með hlutabréf í tilteknum flokki sem tryggir honum hagfelld arðgreiðsluskilmála.

Fram kemur að fyrst hafi spurst til um ofangreindan fasteignasjóð Tollefsen, Heim Global Investor, í vor. Umræddur sjóður horf til fjárfestinga á mörkuðum sem Heimstaden Bostad starfar á.

Fjárfestingarstjóri sjóðsins sagði í viðtali við Dagens Industri að Heim Global Investor og Heimstaden Bostad starfi á tveimur mismunandi sviðum fasteignamarkaðarins, annars vegar fasteignaþróunarverkefni og fasteignafjárfestingar til lengri tíma og hins vegar stýringu á leiguhúsnæði. Þannig sé komist hjá hagsmunaárekstrum.

Fjármálaeftirlit Svíþjóðar tilkynnti í september 2023 að rannsókn væri hafin á fjárfestingu lífeyrissjóðsins í Heimstaden AB. Núverandi stjórnendur Alecta hafa lýst því yfir að sjóðurinn hefði ekki átt að fjárfesta í Heimstaden undir því hluthafasamkomulagi sem samið var um. Það hafi hallað á lífeyrissjóðinn hvað varðar vænta ávöxtun miðað við þá áhættu sem sjóðurinn tók á sig.

Ingrid Bonde sagði af sér sem stjórnarformaður Alecta, í október 2023, vegna ábyrgðar hennar á fjárfestingu lífeyrissjóðsins í Heimstaden Bostad.