Stærsti lífeyrissjóður Noregs, KLP Pension, hefur sett tvo vopnaframleiðendur á lista yfir útilokun fjárfestingarkosta sökum þess að þeir seldu vopn til ísraelska hersins sem notuð voru á Gaza. Bloomberg greinir frá.
KLP Pension, sem er með eignir upp á 114 milljarða dala í stýringu, tilkynnti í morgun að hann muni ekki fjárfesta í Oshkosh Corp. eða ThyssenKrupp AG.
Sjóðurinn sagði ákvörðunina hafa verið tekna út frá skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kom út í júní síðastliðnum þar sem tilgreind voru þau fyrirtæki sem seldu vopn til Ísraelshers sem enduðu á Gaza-ströndinni.
KLP segist hafa komist að þeirri niðurstöðu að fjárfestingar í umræddum fyrirtækjum fari gegn stefnu sinni um ábyrgar fjárfestingar, eftir að hafa fundað með fulltrúum fyrirtækjanna.
KLP upplýsir um að þar til 16. júní síðastliðinn átti sjóðurinn hlutabréf að markaðsvirði 1,8 milljónir dala, eða tæplega 230 milljónir íslenskra króna, í Oshkosh og 1 milljónar dala hlut í ThyssenKrupp, eða sem nemur 120 milljónum íslenskra króna.
