Pimco, einn stærsti skuldabréfafjárfestir heims, hefur náð einni arðbærustu fjárfestingu sinni í 50 ára sögu fyrirtækisins – og það í hlutabréfum.
Pimco á nú 354 milljónir A-flokks hluta í orkuútflutningsfyrirtækinu Venture Global, sem fór í frumútboð í síðustu viku á 25 dali fyrir hlut.
Þótt gengi bréfanna hafi síðan lækkað niður í 20 dali er hlutur Pimco enn metinn á um 7 milljarða dala, sem er fjórtánföld ávöxtun miðað við gengið sem fyrirtækið keypti bréfin á fyrir átta árum.
Samkvæmt The Wall Street Journal er fjárfesting Pimco skýrt dæmi um vaxandi áhrif fjölbreyttara eignasafna hjá sjóðum.
Áhersla á hlutabréf, lán og aðrar áhættusamari fjárfestingar hefur breytt landslagi sjóðastýringar og skapað aukna samkeppni milli hefðbundinna sjóðastýringarfyrirtækja og sérhæfðra einkafjárfestingasjóða.
Slíkar fjárfestingar geta skilað háum ávöxtunum en geta líka falið í sér umtalsverða áhættu.
Pimco hefur eflt óhefðbundnar fjárfestingar sínar til muna undanfarin ár. Eignir í einkalánum, hlutabréfum og öðrum vogunarsjóðum námu samtals 191 milljarði dala í lok árs 2024, samanborið við 32 milljarða árið 2015.
Afar arðbær fjárfesting
Pimco fjárfesti fyrst í Venture Global árið 2016 eftir að fyrirtækið tryggði sér langtímasamning við olíurisann Shell. Í kjölfarið tók Pimco þátt í fleiri fjármögnunarlotum á árunum 2017 og 2018.
Eftirspurn eftir jarðgasi jókst verulega eftir innrás Rússlands í Úkraínu árið 2022, sem gerði Venture Global að mikilvægum birgja Evrópu. Fyrirtækið skilaði samtals nærri 7 milljarða dala hagnaði á árunum 2022 og 2023.
Væntingar voru miklar fyrir frumútboðið en um tíma stefndi í að Venture Global yrði metið á um 100 milljarða dala.
Erfið byrjun á markaði
Sú bjartsýni stóðst ekki að fullu. Hluturinn var skráður á 25 dali en verðið hefur síðan fallið niður í 19,95 dali. Markaðsvirði fyrirtækisins stendur nú í 48,3 milljörðum dala, langt frá væntingum fyrir útboðið.
Pimco getur ekki selt hluti sína fyrr en eftir sex mánuði en engu að síður lítur út fyrir að félagið hafi tryggt sér ágætis hagnað. Meðaltalsverð þeirra bréfa sem Pimco keypti var einungis 1,38 dalir á hlut.
Eignarhlutur Pimco í Venture Global er dreifður yfir sjö mismunandi sjóði, þar á meðal sjóð sem sérhæfir sig í skuldabréfum orkufyrirtækja.
Þótt þessi fjárfesting hafi reynst afar arðbær virðist hún ekki marka stefnubreytingu hjá Pimco, sem heldur áfram að leggja megináherslu á skuldabréfamarkaði, þar sem fyrirtækið er einn stærsti leikandinn á heimsvísu.