Pimco, einn stærsti skulda­bréfa­fjár­festir heims, hefur náð einni arðbærustu fjár­festingu sinni í 50 ára sögu fyrir­tækisins – og það í hluta­bréfum.

Pimco á nú 354 milljónir A-flokks hluta í orkuút­flutnings­fyrir­tækinu Venture Global, sem fór í frumútboð í síðustu viku á 25 dali fyrir hlut.

Þótt gengi bréfanna hafi síðan lækkað niður í 20 dali er hlutur Pimco enn metinn á um 7 milljarða dala, sem er fjórtánföld ávöxtun miðað við gengið sem fyrir­tækið keypti bréfin á fyrir átta árum.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal er fjár­festing Pimco skýrt dæmi um vaxandi áhrif fjöl­breyttara eigna­safna hjá sjóðum.

Áhersla á hluta­bréf, lán og aðrar áhættu­samari fjár­festingar hefur breytt lands­lagi sjóðastýringar og skapað aukna sam­keppni milli hefðbundinna sjóðastýringar­fyrir­tækja og sér­hæfðra einka­fjár­festinga­sjóða.

Slíkar fjár­festingar geta skilað háum ávöxtunum en geta líka falið í sér um­tals­verða áhættu.

Pimco hefur eflt óhefðbundnar fjár­festingar sínar til muna undan­farin ár. Eignir í einkalánum, hluta­bréfum og öðrum vogunar­sjóðum námu sam­tals 191 milljarði dala í lok árs 2024, saman­borið við 32 milljarða árið 2015.

Afar arðbær fjárfesting

Pimco fjár­festi fyrst í Venture Global árið 2016 eftir að fyrir­tækið tryggði sér langtíma­samning við olíurisann Shell. Í kjölfarið tók Pimco þátt í fleiri fjár­mögnunar­lotum á árunum 2017 og 2018.

Eftir­spurn eftir jarðgasi jókst veru­lega eftir inn­rás Rúss­lands í Úkraínu árið 2022, sem gerði Venture Global að mikilvægum birgja Evrópu. Fyrir­tækið skilaði sam­tals nærri 7 milljarða dala hagnaði á árunum 2022 og 2023.

Væntingar voru miklar fyrir frumút­boðið en um tíma stefndi í að Venture Global yrði metið á um 100 milljarða dala.

Erfið byrjun á markaði

Sú bjartsýni stóðst ekki að fullu. Hluturinn var skráður á 25 dali en verðið hefur síðan fallið niður í 19,95 dali. Markaðsvirði fyrir­tækisins stendur nú í 48,3 milljörðum dala, langt frá væntingum fyrir út­boðið.

Pimco getur ekki selt hluti sína fyrr en eftir sex mánuði en engu að síður lítur út fyrir að félagið hafi tryggt sér ágætis hagnað. Meðaltals­verð þeirra bréfa sem Pimco keypti var einungis 1,38 dalir á hlut.

Eignar­hlutur Pimco í Venture Global er dreifður yfir sjö mis­munandi sjóði, þar á meðal sjóð sem sér­hæfir sig í skulda­bréfum orku­fyrir­tækja.

Þótt þessi fjár­festing hafi reynst afar arðbær virðist hún ekki marka stefnu­breytingu hjá Pimco, sem heldur áfram að leggja megin­áherslu á skulda­bréfa­markaði, þar sem fyrir­tækið er einn stærsti leikandinn á heims­vísu.