Origo hefur uppfært lista yfir 20 stærstu hluthafa félagsins í kjölfar þess að valfrjálsu tilboði Umbreytingar II, framtakssjóðs í stýringu hjá Alfa framtaki, lauk þann 22. febrúar. Alls bárust samþykki frá um helmingi hluthafa Origo fyrir 33,8% hlut að andvirði um 4,8 milljarðar króna.
Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um þá tók Lífeyrissjóður verzlunarmanna þátt og seldi allan 10,1% hlut sinn fyrir um 1,4 milljarða króna. Stapi lífeyrissjóður seldi einnig allan 7,2% hlut sinn fyrir um einn milljarð. Birta lífeyrissjóður seldi 4,5% hlut en heldur enn á 6,4% hlut í Origo.
Svo virðist sem Almenni lífeyrissjóðurinn hafi einnig tekið þátt. Almenni, sem átti um 0,6% hlut að markaðsvirði 89 milljónir króna, er ekki lengur á topp 20 listanum.
Þá eru tveir sjóðir í stýringu hjá Landsbréfum, sem áttu samtals 1,8% hlut í lok febrúar, og tveir sjóðir í rekstri Íslandssjóða, sem áttu samanlagt um 1,6% hlut, ekki lengur á listanum.
3,7 milljarða kaupa framtakssjóðsins Umbreytingar II, í rekstri Alfa Framtaks, á 25,8% hlut í upplýsingatæknifyrirtækinu í byrjun síðustu viku. Lista yfir stærstu hluthafa Origo fyrir og eftir viðskiptin má finna neðst í fréttinni.
Átta hluthafar með yfir 1%
Í kjölfar þess að viðskiptin vegna valfrjálsa tilboðsins fóru í gegn eiga átta hluthafar yfir 1% hlut í Origo. Umbreyting II er komin með 63% hlut í Origo.
Frigus II, sem er í eigu bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona, kennda við Bakkavör, og Sigurðar Valtýssonar, er með 8,4% hlut sem er um 1,2 milljarðar króna að markaðsvirði miðað við 101 krónu tilboðsverðið.
Þar á eftir kemur Birta með 6,4% hlut og Sjóva með 3,5% hlut. Þrír sjóðir í stýringu hjá Stefni fara með samtals 6,0% hlut í Origo og tveir sjóðir hjá Kviku eignastýringu eiga samanlagt 1,6% hlut. Einnig eru þrír sjóðir í stýringu hjá Vanguard með samtals 1,2% hlut. Þá er GJS ehf., í eigu Guðrúnar Sigurðardóttur með 1,1% hlut.