Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti hluthafi Festi, greiddi öll atkvæði sín í stjórnarkjörinu í dag með Sigurlínu Ingvarsdóttur. Gildi lífeyrissjóður, næst stærsti hluthafi Festi, kaus hins vegar gegn breytingum á stjórninni. Þá skipti Birta lífeyrissjóður atkvæðum sínum til helminga á Guðjón Reynisson og Margréti Guðmundsdóttur. Þetta kemur fram á heimasíðum sjóðanna og í svörum við fyrirspurnum Viðskiptablaðsins.
Ný fimm manna stjórn var kjörin á hluthafafundinum í morgun. Sigurlína ásamt Magnúsi Júlíussyni og Hjörleifi Pálssyni komu ný inn í stjórnina en Guðjón og Margrét héldu sætum sínum í stjórninni. Á stjórnarfundi sem fram fór í kjölfarið var ákveðið að Guðjón skyldi starfa sem formaður stjórnar og Sigurlína sem varaformaður.
Margfeldiskosning var viðhöfð í stjórnarkjörinu að kröfu fimm hluthafa, þar á meðal LSR og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Fyrir vikið gátu hluthafar ráðstafað atkvæðum sínum á frambjóðendur í þeim hlutföllum sem þeir kusu sjálfir og jafnvel lagt öll atkvæði sín á einn frambjóðenda.
Sjá einnig: Hitafundur hjá Festi
Ljóst er að stuðningur LSR, sem fer með 13,1% hlut í Festi, dugði Sigurlínu til að ná kjöri í stjórnina en hún hlaut samtals 14,7% atkvæða á fundinum. Sigurlína starfar í dag sem sjálfstæður ráðgjafi ásamt því að vera fjárfestir hjá vísisjóðnum Behold VC þar sem hún er einn eigenda. Hún situr einnig í stjórn Aldin Dynamics, Domoyo Studios, Eyris Vaxtar og CRI ásamt því að vera stjórnarformaður Mussila og Solid Clouds.
Gildi lífeyrissjóður, sem fer með 9,9% hlut í Festi, deildi atkvæðum sínum á sitjandi stjórnarmenn og kaus því gegn breytingum á stjórninni. Nánar tiltekið greiddi Gildi atkvæði með Guðjóni og Margréti auk Ástvalds Jóhannessonar, Sigrúnar Hjartardóttur og Þóreyjar G. Guðmundsdóttur.
Þá skipti Birta lífeyrissjóður, fimmti stærsti hluthafi Festi með 6,8% hlut, atkvæðum sínum til helminga á Guðjón og Margréti.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, formaður tilnefningarnefndar Festi, sagði á fundinum að ólík sjónarmið hefðu komið fram meðal stærstu hluthafa félagsins. Sumir hefðu viljað skipta öllum stjórnarmönnum út á meðan öðrum hafi fundist óþarfi að boða til fundarins.
Fréttin var uppfærð eftir að svar við fyrirspurn Viðskiptablaðsins barst frá Birtu lífeyrissjóði.