Coca-Cola tilkynnti í dag um að félagið hafi komist að samkomulagi um að eignast allt hlutafé í íþróttadrykkjaframleiðandanum BodyArmor, en síðarnefnda félagið er metið á tæplega 8 milljarða dala, eða um 1.040 milljarða króna, í viðskiptunum samkvæmt WSJ . Um er að ræða stærstu kaup á vörumerki í sögu Coca-Cola en fyrra met voru 5,1 milljarða dala yfirtaka á Costa Coffee.

Coke keypti 15% hlut í BodyArmor árið 2018 fyrir 300 milljónir dala, og var íþróttadrykkjafyrirtækið þá metið á 2 milljarða dala. Coke eignaðist 15% til viðbótar í BodyArmor við aukið samstarf fyrirtækjanna sem fól meðal annars í sér dreifingu BodyArmor drykkjunum.

Drykkjarvörurisinn kaupir nú eftirstandandi 70% hlut í BodyArmor á 5,6 milljarða dala sem var í eigu stofnenda og fjárfesta, þar á meðal NBA körfuboltamannsins James Harden og hafnarboltamannsins Mike Trout, sem tóku þátt í markaðssetningu íþróttadrykkjanna.

Þá mun dánarbú Kobe Bryant, sem lést í þyrluslysi í janúar 2020, fá um 400 milljónir dala, eða um 52 milljarða króna, fyrir söluna. Bryant, fimmfaldur NBA meistari með LA Lakers, fjárfesti 6 milljónum dala í BodyArmor á sínum tíma og sat í stjórn félagsins fram að andláti sínu.

Sala BodyArmor hefur aukist verulega á undanförnum árum. Veltan nam tæplega 250 milljónum dala árið 2018 en búist er við að hún nái 1,4 milljörðum dala í ár. Gatorade er þó enn með yfirburði á markaði íþróttadrykkja og var með um 64% hlutdeild í september síðastliðnum. Hlutdeild BodyArmor var um 18% og hefur framleiðandinn nú tekið fram úr Powerade, sem er einnig í eigu Coke, sem var með 12% hlutdeild.