BlackRock, stærsta eignastýringafyrirtæki heims, hefur náð samkomulagi um 12,5 milljarða dala kaup á Global Infrastructure Partners (GIP) sem sérhæfir sig í framtaksfjárfestingum á sviði innviða.
Kaupin á GIP, sem er með eignir að andvirði 106 milljarðar dala í stýringu, mun hafa í för með sér að BlackRock verður næststærsta fyrirtæki heims á sviði fjárfestinga í innviðum, aðeins á eftir Macquarie.
Meðal helstu eigna GIP eru stórir eignarhlutir í alþjóðaflugvöllunum í Sydney og London Gatwick, stórskipahöfninni í Melbourne og veitufyrirtækinu Suez. Einnig er GIP með umtalsverðar fjárfestingar í orkugeiranum og eignarhlut í stórri leiðslu fyrir leirsteinsolíu (e. shale oil).
BlackRock samþykkti að greiða 3 milljarða dala í reiðufé og hlutabréf í sameinuðu félagi að andvirði 9,5 milljarðar dala. GIP er að meirihluta í eigu sex stofnenda fjárfestingarfélagsins sem munu saman eignast um 8% hlut í BlackRock, samkvæmt heimildarmanni WSJ.