Samkeppnis- og neytendastofnun Bandaríkjanna (e. FTC) hyggst höfða mál til að koma í veg fyrir 75 milljarða dala yfirtöku Microsoft á Activision Blizzard vegna áhyggja yfir neikvæðum áhrifum samrunans á keppinauta Xbox leikjatölvunnar og skýjatölvuleikjastarfsemi félagsins.

„Við stefnum að því að koma í veg fyrir að Microsoft geti öðlast stjórn á leiðandi sjálfstæðum tölvuleikjaframleiðanda og nýta sér hann til að draga úr samkeppni á nokkrum kvikum og hraðvaxta tölvuleikjamörkuðum,“ sagði framkvæmdastjóri samkeppnissviðs FTC í tilkynningu.

Kaupin á Activision yrðu stærsta yfirtaka í sögu Microsoft. Fari samruninn í gegn verður Activison þriðja stærsta tölvuleikjafyrirtæki heims sé horft til tekna. Kínverska fyrirtækið Tencent og hið japanska Sony eru tvö stærstu fyrirtækin á markaðnum.

Í umfjöllun Financial Times segir að Samkeppniseftirlit Bretlands sem og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins séu auk þess að rannsaka kaupin.

Hlutabréf Activision lækkuðu um 1,5% í gær og hafa fallið áfram í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag. Hins vegar hækkaði hlutabréfaverð Microsoft um 1,2% í gær.