Seðlabanki Kína kynnti í gær víðtækar stuðningsaðgerðir, þar á meðal lækkun á meginvöxtum bankans, til að reyna að örva hagkerfið. Í umfjöllun Reuters segir að þetta séu stærstu stuðningsaðgerðir bankans frá því í Covid-faraldrinum.
Bankinn tilkynnti um lækkun á vöxtum fyrir sjö daga öfug endurhverf viðskipti (e. seven-day reverse repo rate), þ.e. skammtímavexti í viðskiptum við lánastofnanir, úr 1,7% í 1,5%.
Seðlabankinn ákvað einnig að lækka bindiskyldu lánastofnana um 0,5 prósentustig sem ætti að auka lausafé í bankakerfinu um þúsund milljarða júan, eða um 142 milljarða dala. Bankinn gaf til kynna að hlutfallið gæti lækkað um 0,25-0,5 prósentur til viðbótar í ár, að því er segir í frétt Financial Times.
Aðgerðir bankans koma í kjölfar efasemda um að kínverska hagkerfið myndi ná markmiðum stjórnvalda um 5% hagvöxt í ár. Hagvöxtur í Kína hefur verið dragast saman að undanförnu, m.a. vegna minni umsvifa í fasteignageiranum.
Miklar hækkanir á kínverska hlutabréfamarkaðnum
Á opnum kynningarfundi boðaði bankinn einnig stuðningsaðgerðir af hálfu ríkissjóðs til að styðja við kínverska hlutabréfamarkaðinn og endurkaup fyrirtækja auk frekari aðgerða til að styðja við fasteignageirann.
Kínverska hlutabréfavísitalan CSI 300, sem inniheldur skráð félög í kauphöllum Shanghai og Shenzhen, hækkaði um 4,3% í morgun, sem er mesta hækkun vísitölunnar á einum degi frá því í júlí 2020. Hang Seng vísitalan, sem inniheldur skráð félög í Hong Kong kauphöllinni, hækkaði um 4,1%.
Europe Stoxx 600 vísitalan hefur hækkað um 0,7% í fyrstu viðskiptum, enska FTSE 100 vísitalan hefur hækkað um 0,4% og franska CAC 40 vísitalan hefur hækkað um 1,6%.