Spurður um helstu áskoranir sem íslensk verslun og þjónusta stendur frammi fyrir nefnir Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, stafrænu umbreytinguna sem þegar hefur verið minnst á. „Stafræn umbreyting felur einnig í sér gífurleg tækifæri því hún getur m.a. lækkað kostnað fyrirtækjanna. Samkeppni við erlendar netverslanir felur í sér ógnir en einnig tækifæri á sama tíma því samkeppni hvetur fyrirtækin hér heima til að endurskipuleggja sig og þjónusta viðskiptavini enn betur. Margar innlendar verslanir hafa til að mynda opnað netverslanir til að bregðast við tækniframförum og breyttri kauphegðun neytenda. Ég tel þó að það muni alltaf vera eftirspurn frá neytendum eftir verslunum þar sem þeir geta mætt á staðinn og fengið ráðgjöf og góða þjónustu. Þjónustuþátturinn verður áfram mjög mikilvægur.“
Rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja geti ekki síður reynst ein helsta áskorun fyrirtækja í verslun og þjónustu. „Það þarf að vera gott og heilbrigt starfsumhverfi sem lítur ekki að þröngum sérhagsmunum svo fyrirtæki geti dafnað vel hér á landi. Sem betur fer búa íslensk fyrirtæki við tiltölulega heilbrigt rekstrarumhverfi en það má alltaf gera betur. Langstærsti hluti íslenskra fyrirtækja eru lítil eða meðalstór og eru því ekki öll í stakk búin til að takast á við hraða stafræna þróun eða aðra ytri þætti sem lúta að samkeppni. Þess vegna teljum við hjá SVÞ mikilvægt að vera vettvangur sem þessi fyrirtæki geta leitað til og fengið stuðning til að takast á við þessar áskoranir. Í litlum fyrirtækjum er oft ekki bolmagn til að vera með sérfræðinga á hinum ýmsu afmörkuðu sviðum í vinnu. Þar geta samtökin veitt hjálparhönd fyrir sín aðildarfyrirtæki.“
Ríkið þarf að hagræða
Jón Ólafur kveðst ánægður með að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru í síðasta mánuði, hinir svokölluðu stöðugleikasamningar, séu í höfn. Þetta séu að vissu leyti tímamótakjarasamningar þar sem með samstilltu átaki hafi verkalýðsfélögin og atvinnurekendur gert með sér skynsamlega og hófstillta kjarasamninga sem tali inn í kostnaðarmat sem Seðlabankinn hefur gefið út sem það svigrúm sem sé fyrir hendi. Aftur á móti séu nú í fullum gangi samningaviðræður um kjarasamninga á opinbera vinnumarkaðnum og mikilvægt sé að skynsemi verði einnig höfð að leiðarljósi í þeim viðræðum.
„Það urðu auðvitað margir fyrir vonbrigðum með að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hafi ekki ákveðið að lækka stýrivexti í síðustu vaxtaákvörðun. Það kann að vera að nefndin hafi m.a. viljað bíða og sjá hvort samningar á opinbera markaðnum fylgdu sömu hófstilltu línu og á almenna markaðnum. Það er sameiginlegt verkefni atvinnulífs, stjórnvalda og heimilanna í landinu að stuðla að því að ná verðbólgu niður svo hægt sé að lækka stýrivexti. Í því liggja mestu tækifærin fyrir alla þjóðina.“
Mikilvægt sé að ekki séu sömu mistök gerð og í kjarasamningalotu fyrir nokkrum árum síðan er ríki og sveitarfélög gengu lengra í launahækkunum og kjarabótum en almenni vinnumarkaðurinn. „Það er kolröng nálgun enda veldur það núningi og hefur svo áhrif á næstu kjarasamningaviðræður á hinum almenna vinnumarkaði. Aftur á móti neita ég að trúa því að þessi mistök verði endurtekin nú því það virðist ríkja sameiginlegur skilningur, a.m.k. hjá flestum, um að verkefnið sé að vinna gegn verðbólgu og háum vöxtum. Til þess að það takist þurfa kjarasamningar að vera hófstilltir. Það er mjög skynsamlegt að almenni vinnumarkaðurinn semji fyrst og marki þannig stefnu sem opinberi markaðurinn getur svo fylgt. Vonandi verður það með þeim hætti í þetta skiptið.“
Jón Ólafur bendir þó að samið hafi verið um hóflegar launahækkanir í stöðugleikasamningnum séu stjórnvöld að stíga inn með 80 milljarða króna aðgerðapakka á fjögurra ára samningstímabilinu. „Við höfum varað við því að þessar aðgerðir séu fjármagnaðar með frekari skattheimtu eða lántökum því þannig er fyrirtækjunum og heimilunum sendur bakreikningur. Það er því ljóst að ríkið þarf að taka til í sínum rekstri og hagræða verulega. Atvinnulífinu ber að halda stjórnvöldum við efnið. Annars vegar við það að pressa á þau að ráðast í almenna tiltekt í ríkisrekstrinum og hins vegar með því að hvetja stjórnvöld til að útvista verkefnum sínum í auknum mæli til atvinnulífsins. Þannig getur ríkið einbeitt sér að því sem það er best í, en það er svo sannarlega ekki best í því að reka atvinnustarfsemi í samkeppni við einkaaðila.“
Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins um 25 ára afmælisráðstefnu SVÞ. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.