Olís – ÓB hefur gefið út nýtt app sem hægt er að nota til að greiða fyrir eldsneyti á sjálfsölum og inni á stöðvum með einföldum hætti í símanum.

Í tilkynningu segir að nýja appið veiti góða yfirsýn yfir öll viðskipti auk þess geti viðskiptavinir framvegis borgað með símanum.

„Við höfum þróað lausn sem veitir meiri þægindi, betri yfirsýn og aukna hagsæld fyrir þá í formi fríðinda og afslátta,“ segir Ingunn Svala Leifsdóttir, framkvæmdastjóri Olís.

Olís – ÓB kort er í appinu sem er virkjað með því að tengja það við debet- eða kreditkort í Apple Wallet eða Google Wallet til að greiða með símanum fyrir eldsneyti og aðrar vörur.

Fréttir og upplýsingar um tilboð og eldsneytiskjör berast í rauntíma og auðvelt er að fylgjast með söfnun fríðinda í appinu. Í appinu er einnig kort sem sýnir allar stöðvar Olís og ÓB um allt land með upplýsingum um hvaða þjónusta er í boði á hverjum stað.

„Sjálfvirkar og stafrænar lausnir gera viðskiptavinum kleift að fá hraðvirka og þægilega þjónustu, hvort sem það er með sjálfsafgreiðslu, greiðslulausnum í gegnum snjallforrit eða sjálfvirkum hleðslustöðvum,“ segir Ingunn Svala jafnframt.