Seðlabankarafeyrir (e. Central Bank Digital Currency eða CBDC) mun ekki hafa í för með sér róttækar breytingar á fjármála- eða bankakerfinu eins og seðlabankasamfélagið – með Alþjóðagreiðslubankann (e. Bank for International Settlements) í fararbroddi – og varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika sjá hann fyrir sér.
„Það er ekki hugsunin að hinn nýi rafeyrir verði í beinni samkeppni við bankana um innlán eða komi í stað fyrir hefðbundin bankaviðskipti, ekki frekar en seðlar og mynt gera í dag. Þegar þig vantar seðla ferðu ekki í seðlabankann, heldur í bankaútibú eða hraðbanka á hans vegum,“ segir Carstens í samtali við blaðið.
Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika tekur í sama streng en hann telur líklegt að seðlabankarafeyrir og útgáfa hans muni tengjast greiðslumiðlun frekar en innlánssöfnun eða öðru sem fæli í sér að seðlabankar þyrftu að leggja mat á viðskiptavini og svo framvegis. „Seðlabankar eru einfaldlega ekki færir um að sinna því með virkum hætti.“
Hann tekur þó fram að um persónulega skoðun sína sé að ræða, þar sem bankinn hafi ekki mótað sér formlega stefnu í málinu. „Í þessum efnum held ég því að seðlabankar muni stíga mjög varlega til jarðar við að breyta hlutverki sínu. Ég held að hugsunin sé frekar hvernig einfalda megi eitt af meginhlutverkum allra seðlabanka, að vera hjartað í greiðslumiðlun.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.