Seðlabankarafeyrir (e. Central Bank Digital Currency eða CBDC) mun ekki hafa í för með sér neinar róttækar breytingar á fjármála- eða bankakerfinu eins og seðlabankar heimsins – þeirra á meðal sá íslenski – sjá hann fyrir sér.

Hugmyndin er tiltölulega ný af nálinni en hefur þróast hratt og margir hafa séð fyrir sér miklar breytingar, bæði til hins betra og verra. Sumir sjá fyrir sér að slíkt kerfi muni gera fólki kleift að geyma og miðla peningum beint í gegnum seðlabankann og sniðganga þannig bankana en aðrir óttast eins konar óbeina ríkisvæðingu fjármálakerfisins.

Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands, heimsótti á dögunum norrænt þróunarsetur Alþjóðagreiðslubankans (e. Bank for International Settlements) ásamt norrænu seðlabankastjórunum og forstöðumanni stofnunarinnar Agustín Carstens.

Samkeppni við bankana ekki hugsunin

Hugmyndin um seðlabankarafeyri eins og hún hefur þróast innan seðlabankasamfélagsins er almennt ekki talin fela í sér umbyltingu hins svokallaða brotaforðakerfis, sem felur í stuttu máli í sér að bankarnir liggja einungis með lítinn hluta innlána sem laust fé.

„Það er ekki hugsunin að hinn nýi rafeyrir verði í beinni samkeppni við bankana um innlán eða komi í stað fyrir hefðbundin bankaviðskipti, ekki frekar en seðlar og mynt gera í dag. Þegar þig vantar seðla ferðu ekki í seðlabankann, heldur í bankaútibú eða hraðbanka á hans vegum,“ segir Carstens í samtali við blaðið.

Gunnar telur líklegt að seðlabankarafeyrir og útgáfa hans muni tengjast greiðslumiðlun frekar en innlánssöfnun eða öðru sem fæli í sér að seðlabankar þyrftu að leggja mat á viðskiptavini og svo framvegis.

„Seðlabankar eru einfaldlega ekki færir um að sinna því með virkum hætti.“ Sem dæmi telur hann minni líkur en meiri á að bankinn muni greiða einstaklingum vexti af slíkum peningum. Hann tekur þó fram að um persónulega skoðun sína sé að ræða, þar sem bankinn hafi ekki mótað sér formlega stefnu í málinu.

„Í þessum efnum held ég því að seðlabankar muni stíga mjög varlega til jarðar við að breyta hlutverki sínu. Ég held að hugsunin sé frekar hvernig einfalda megi eitt af meginhlutverkum allra seðlabanka, að vera hjartað í greiðslumiðlun.“ Eins og hann sjái hlutverk seðlabankans snúist það um að tryggja að grunninnviðirnir séu öruggir, skilvirkir og hagkvæmir, en svo eigi aðrir að geta byggt ofan á það.

„Það er því ekki seðlabankans að hugsa um tækniviðmótið eða annað sem snýr að endanlegri þjónustu við almenning, heldur að stuðla að því og styðja við að einkaaðilar geti sinnt því hlutverki.“

Þótt innleiðing nútímatækni á þessu grundvallarsviði mannlegs samfélags, peningum, sé orðin tímabær sé fjármálakerfið sem á þeim byggi afrakstur hundraða ára vinnu og þróunar. „Mér finnst ólíklegt að við munum innleiða rafrænt seðlabankafé með þeim hætti að það verði hætta á að þeir tapi stórum hluta af fjármögnun sinni. Þá værum við hreinlega komnir í andstöðu við upprunalegt hlutverk seðlabanka, að vera banki bankanna og styðja við brotaforðakerfið,“ segir Gunnar.

Að því sögðu þjóni seðlabankar mikilvægu hlutverki. „Það er bara þannig að einkapeningar – peningar gefnir út af einkaaðilum – hafa hvergi gengið upp. Það hefur verið reynt mörgum sinnum, en á endanum hefur ríkið alltaf þurft að baktryggja peninga. Ég held að seðlabankar heimsins – sem fulltrúar ríkja heimsins – muni aldrei gefa eftir einkaleyfið á peningum út af miðlun peningastefnunnar.“

Gæti hraðað útskiptingu gjaldmiðla

Hvorki Gunnar né Carstens sjá fyrir sér að innleiðing seðlabankarafeyris sem slíks hafi teljandi áhrif á peningamálastefnu viðkomandi landa.

„Peningamálastefna virkar á þann hátt sem við þekkjum undir eðlilegum kringumstæðum, og seðlabankafé í rafrænu formi, þ.e. seðlabankarafeyrir, ætti í sjálfu sér ekki að hafa áhrif þar á. Engu að síður er sá möguleiki fyrir hendi að gjaldmiðlum í litlum og opnum hagkerfum yrði skipt út fyrir sterkari gjaldmiðil,“ segir Carstens.

„Þegar allt kemur til alls er það ekki rafeyririnn sem er vandamálið í slíkum aðstæðum heldur gjaldmiðillinn sjálfur. Seðlabankarafeyrir gæti hins vegar orðið hvatinn að eða hraðað slíku ferli. Það er því afar mikilvægt þar sem hætta getur verið á slíku að fyrir hendi séu viðeigandi stjórntæki til að tryggja að svo fari ekki.“

Reiðufé stenst ekki kröfur nútímans

Spurður hvers vegna hann telji þörf á seðlabankarafeyri bendir Carstens á að grundvallarhlutverk seðlabanka og helsta framlag þeirra til samfélagsins sé að tryggja traust á peningakerfinu, og þar með peningunum sjálfum.

Þetta hafi seðlabankar í gegnum tíðina gert með útgáfu seðla og myntar sem myndi undirstöðu fjármálakerfisins alls, en efnislegt form þeirra sé komið vel til ára sinna og farið að finna fyrir aldrinum á tímum alltumlykjandi tækni og tengingar hennar við umheiminn.

„Almenningur hefur ekki aðgang að innlánsreikningum hjá seðlabönkum, og reiðufé eitt og sér stenst einfaldlega ekki lengur kröfur nútímasamfélags um beintengingu við hinn stafræna heim. Notendur í dag ætlast til þess að geta innt greiðslur af hendi hvar og hvenær sem er og að þær gangi í gegn samstundis, og slíkar lausnir standa raunar neytendum í mörgum löndum þegar til boða.“

Gunnar svarar sömu spurningu á þessa leið: „Hvað er seðlabanki þegar allt kemur til alls? Hann er bara samtrygging, og fyrir hana borgum við eitthvert iðgjald, sem er þá kostnaðurinn við kerfið; eftirlit, greiðslumiðlun og svo framvegis. Auðvitað eigum við að leita leiða til að lækka það gjald til lengri tíma.“

Norðurlöndin margt fram að færa

Carstens segir Norðurlandaríkin sérstaklega hafa margt fram að færa á þessu sviði enda standi þau þar framarlega, og nefnir skilvirkni greiðslukerfa landanna sérstaklega. „Svæðið hefur þegar lagt mikið af mörkum hvað tækniþróun varðar og norræn starfsstöð Alþjóðagreiðslubankans þótti því tilvalin til að leiða rannsóknir og þróun fyrir seðlabanka þrátt fyrir harða samkeppni. Það er mikil gæfa að hafa fengið seðlabanka landanna fjögurra til að taka beinan þátt í ferlinu.“

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði