Æskuvinirnir og Selfyssingarnir Steingrímur Steingrímsson og Dagur Snær Elísson hafa sett á fót stafræna hönnunar- og listamarkaðinn Mín hönnun. Mun markaðurinn opna á næstu dögum. Er markmið þeirra með þessum stafræna markaði að auðvelda hönnuðum og listamönnum hér á landi að koma vörum sínum á framfæri, og á sama tíma auðvelda áhugasömum kaupendum að nálgast verk þeirra.

„Við höfum verið að sjá fólk á svipuðum aldri og við að skapa og hanna hluti og koma sér svo á framfæri í gegnum samfélagsmiðla. Okkur fannst hins vegar vanta vettvang þar sem margir hönnuðir og listamenn gætu komið saman á einhvers konar stafrænum markaði. Þannig ættu þeir auðveldara með að selja vörurnar sínar og jafnframt yrði auðveldara fyrir kaupendur að nálgast íslenska hönnun og list. Hugmyndin er í raun sú að þetta sé markaðstorg fyrir listamenn og hönnuði, svipað og verslanir sem bjóða til sölu verk margra listamanna og hönnuða, nema hvað okkar markaðstorg er á netinu," segir Dagur Snær.

„Það eru margir hönnuðir og listamenn sem ég þekki til sem eru frábærir í að skapa og hanna hluti en svo þegar kemur að viðskiptahliðinni, sem sagt að selja vöruna, á fólk oft í vandræðum með það og þá verður oft á tíðum ekkert úr þessu hjá þeim. Með því að búa til þennan vettvang gerum við þeim kleift að einbeita sér að sínum styrkleikum á meðan við sjáum um að selja vörurnar og koma þeim á framfæri," bætir hann við.

Að sögn Dags eru þeir Steingrímur miklir listunnendur. Dagur er til að mynda á kafi í að vinna með tónlist og hefur komið reglulega fram sem plötusnúður á hinum ýmsu viðburðum. Þá eigi þeir það einnig sameiginlegt að vera miklir frumkvöðlar í sér. „Við höfum báðir mjög gaman af því að skapa eitthvað nýtt og búa til ný og spennandi verkefni."

Einblína á alla flóruna

Dagur Snær bendir á að vissulega megi finna dæmi um stafræna markaði með málverk en hugsun þeirra félaganna sé að einblína á alla flóruna, hvort sem um sé að ræða málverk, bækur eða vínylplötur. „Við viljum bjóða upp á góða breidd í stað þess að einblína á eitt ákveðið listform."

Að hans sögn eru nokkrir hönnuðir og listamenn þegar komnir í samstarf við þá. „Þessir hönnuðir og listamenn eru með mismunandi sérsvið og skapa ýmiss konar vörur," segir Dagur Snær og útskýrir að hver og einn listamaður muni vera með sinn eigin prófíl, þar sem hann getur sagt frá sjálfum sér og sínum verkum. Auk þess verði verk þeirra sýnileg innan þess vöruflokks sem verk þeirra falli undir. Til að mynda muni málverk listmálara verða sýnileg innan vöruflokksins málverk. Að sögn Dags eru þeir samstarfsaðilar sem þegar hafa skráð sig til leiks aðallega ungir listamenn og hönnuðir, en eldri hönnuðir og listamenn hafi einnig sýnt þessu mikinn áhuga.

Ekki er ýkja langt síðan hugmyndin á bak við Mín hönnun kviknaði. „Það eru í raun bara nokkrir mánuðir síðan hugmyndin kviknaði. Það kom þannig til að ég heyrði í Steingrími og sagði honum frá þessari pælingu minni og þá hafði hann einmitt fengið svipaða hugmynd. Okkur fannst því tilvalið að keyra þessa hugmynd strax af stað og kýldum því í raun bara á þetta og hófum undirbúning að opnun síðunnar fyrir u.þ.b. einum og hálfum mánuði síðan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .