Justikal hefur þróað stafrænt réttarkerfi sem gerir aðilum í dómsmálum kleift að meðhöndla gögn á öruggan og rekjanlegan hátt. Lausnin er í fullu samræmi við íslensk og evrópsk lög, þar á meðal eIDAS-reglugerðina, og er boðin dómstólum án nokkurs kostnaðar.
Um er að ræða nýjan valmöguleika fyrir markaðinn og einungis aðili sem stofnar nýtt mál greiðir mánaðarlegt gjald á meðan málið er í vinnslu. Aðrir aðilar eins og lögmenn gagnaðila, skjólstæðingar, fulltrúar og aðrir nota lausnina frítt.
„Ríkið á ekki að vera að þróa lausnir sem eru í beinni samkeppni við einkamarkaðinn. Slík stefna mun leiða til sokkins kostnaðar og takmarkar verulega hvata til nýsköpunar innan einkageirans fyrir opinbera þjónustu,“ segir Margrét Anna Einarsdóttir, forstjóri Justikal.
Í sparnartillögu Justikal sem er birt í Samráðsgátt segir að með því að nýta lausnir á borð við Justikal geti íslenska réttarkerfið sparað samfélaginu allt að 3,3 milljarða króna árlega.
„Við getum lækkað kostnaðinn fyrir þá sem eru að sækja rétt sinn fyrir dómstólum, hraðað málsmeðferðinni allt að 30% og stuðlað að mjög jákvæðum umhverfislegum áhrifum með því að sleppa notkun pappírs og sleppa akstri til og frá dómstólum með pappír," segir Margrét og vill hvetja hið opinbera til að nýta íslenska nýsköpun frá einkamarkaðnum í opinberri þjónustu.