Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri Odda hf. á Patreksfirði, er í ítralegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Hann gagnrýnir málflutning ráðherra ríkisstjórnarinnur um að fyrirhuguð hækkun veiðigjalda muni bitna lítið á minni sjávarútvegsfyrirtækjum.
Viðbrögð stjórnvalda við áhyggjum lítilla og meðalstórra fyrirtækja hafi verið á þann veg að búið sé að smíða inn í frumvarpið lausn sem felist í „stórauknu“ frítekjumarki sem eigi að milda áhrifin eða jafnvel hafa engin áhrif á þennan hluta sjávarútvegsins. Skjöldur hefur aftur á móti tekið saman áhrif hærri veiðigjalda á rekstur Odda og segir sá útreikningur allt aðra sögu. Samkvæmt honum mun félagið þurfa að borga 75% hærri veiðigjöld en áður, eða 140 milljónir í stað 80.
„Oddi hf., sem er með innan við 0,5% aflahlutdeild í bolfiski, og getur því í besta falli talist nógu stórt til að vera meðalstórt fyrirtæki, borgaði 80 milljónir í veiðigjöld á síðasta ári en mun þurfa að borga 60 milljónir til viðbótar samkvæmt frumvarpinu, eða samtals 140 milljónir. Núverandi frítekjumark er 2,4 milljónir en verður hækkað í 8 milljónir. Hækkunin á veiðigjaldi Odda verður þá um 55 milljónir. Þetta kallar ráðherra aðgerð til að hlífa þessari stærð fyrirtækja við hækkandi veiðigjöldum. Það þarf ekki sterk gleraugu til að sjá að þessi aðgerð má sín lítils.“
Skjöldur segir að hugsanlega sé ekki hægt að ætlast til þess að almenningur í landinu viti hversu fjölbreyttur sjávarútvegurinn sé. Hins vegar sé öllu verra og hreinlega sorglegt ef stjórnvöld og starfsfólk ráðuneytanna hafi ekki vitneskju um það. „Sjávarútvegur eru ekki bara þessi fimm til sex stóru fyrirtæki sem oftast eru á milli tannanna á fólki, eða einstaklingsútgerðir og strandveiðar. Í þeim þorpum sem oftast eru skilgreind sem sjávarþorp starfa fyrirtæki sem eru lítil og meðalstór. Þau eru oft með um 20-40% af vinnandi fólki í bæjarfélaginu á launaskrá,“ segir hann og nefnir sitt fyrirtæki sem dæmi. „Oddi hf. er t.d. með um 75 manns í vinnu í þorpi sem telur 700 íbúa eða um 20% af vinnumarkaði í beinum störfum, að ótöldum afleiddum störfum.“ Auk þess að starfrækja fiskvinnslu á Patreksfirði gerir Oddi út tvö línuskip, Núp BA69 og Patrek BA-64

Að sögn Skjaldar er best fyrir hvern og einn rekstraraðila sjávarútvegsfyrirtækja að svara hver fyrir sig um hvernig áform stjórnvalda komi til með að hafa áhrif á framtíð fyrirtækis síns.
„Það er alveg klárt að þau eru misjöfn. Oddi hf. nálgast að vera 60 ára gamalt fyrirtæki, en hóf þó ekki útgerð fyrr en árið 1990 með því að kaupa allar sínar aflaheimildir. Áhersla eigenda hefur alltaf verið sú að vera til staðar fyrir þorpið og sýna ríka samfélagslega ábyrgð. Það er langur vegur frá því að reksturinn hafi alltaf verið dans á rósum og svo sannarlega hefur hann aldrei malað gull eins og ráðherra heldur fram. Ef hún var ekki að tala til okkar þá þarf hún að endurskoða aðgerðir gagnvart fyrirtækjum af þessari stærðargráðu. Að öðrum kosti er mikil hætta á að tilgangur og markmið sjávarútvegsfyrirtækjanna í litlu sjávarþorpunum nái ekki fram að ganga; sem er að vera hryggjarstykkið í samfélaginu, íbúum og sveitarfélaginu til heilla.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.